Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvaldimír er slasaður 

07.07.2020 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Mjaldurinn Hvaldimír er illa slasaður og talið er að hann hafi orðið fyrir fiskveiðibáti. Mjaldurinn mannblendni hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og myndböndum af honum í samskiptum við mannfólk er deilt nær daglega.

Nýlega hefur þó aðeins dregið úr mannblendninni, og eftir að hann slasaðist er ljóst að hann þarf á ró og næði að halda. Fólki er ráðlagt að láta Hvaldimír í friði á meðan hann jafnar sig. Norska ríkisútvarpið greinir frá.  

Dýralæknar segja að sárið grói vel, enda sé hvalaskinn gætt sérstaklega góðum eiginleikum til að gróa. Norska fiskveiðistofnunin hefur yfirumsjón með Hvaldimír og dýralæknar á vegum stofnunarinnar fylgjast með heilsu hans.  

Mjaldurinn vakti athygli sjómanna úti fyrir ströndum Norður-Noregs við Finnmörk í apríl í fyrra. Utan um mjaldurinn var beisli sem virtist vera ætlað til að halda fastri myndavél eða vopnum. Að sögn sjómannanna var mjaldurinn félagslyndur og augljóslega vanur samskiptum við mannfólk. Innan á beislinu stóð „St. Petersburg“, og grunsemdir vöknuðu um að mjaldurinn væri þjálfaður af rússneska sjóhernum. Mjaldurinn vakti heimsathygli og Norska ríkisútvarpið efndi til nafnasamkeppni. Hann fékk nafnið Hvaldimír í höfuðið á Vladimír Pútín forseta Rússlands. Upp á síðkastið hefur Hvaldimír haldið sig í Grovfirði í Troms.