Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Herjólfur siglir aukaferð - fundað um stöðuna á morgun

07.07.2020 - 20:40
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Stjórn Herjólfs ohf. hefur boðið fulltrúum starfsmanna og Sjómannafélags Íslands til viðræðna á morgun til að reyna finna lausn á kjaradeilu skipverja Herjólfs.

Sólarhrings verkfalli lýkur á miðnætti í kvöld en fleiri vinnustöðvanir hafa verið boðaðar síðar í þessum mánuði. Deilan hefur haft mikil áhrif á samgöngur til og frá Eyjum og voru engar áætlunarsiglingar í dag.

Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs segir í samtali við fréttastofu að staðan sé flókin enda hafi félagið orðið fyrir miklu tekjutapi vegna kórónuveirufaraldursins. Hann bindur þó vonir við að hægt verði að leysa deiluna áður en næsta verkfallslota hefst.

Gert er ráð fyrir því að Herjólfur sigli aukaferð á miðnætti og Guðbjartur segir ekki útilokað að boðið verði upp á fleiri aukaferðir á morgun til að koma strandaglópum til síns heima.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV