Gargaði á fólk að koma sér út

07.07.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: SAH - Aðsend mynd
Hátt í tuttugu manns þurftu að flýja heimili sín þegar eldur kviknaði á Akranesi í gærkvöld. Sjálfboðaliði Rauða krossins sem átti leið hjá varð eldsins var, hringdi í Neyðarlínu og tók til við að vekja athygli íbúa á eldinum.

„Eldur virðist hafa kviknað í ruslageymslu sem stóð uppi við gafl hússins. Eldurinn magnaðist og læsti sig upp eftir klæðningu hússins,“ segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Eldurinn kviknaði í þröngu porti milli þriggja hæða fjölbýlishúss og annars húss. „Íbúar hússins voru komnir út af sjálfsdáðum. Það var mikill eldur í ruslageymslunni sem teygði sig upp eftir klæðningu hússins var byrjaður að svíða ytra byrði á næsta húsi. Aðkoman gaf til kynna meiri eld en var svo raunin,“ sagði Jens Heiðar og kvað slökkvistarf hafa gengið vel.

Keyrði framhjá fyrir tilviljun

Andrea Björnsdóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, var á heimleið og bað dóttur sína sem skutlaði henni að taka rúnt á neðri Skaganum. Því keyrðu þær fram hjá húsinu og sáu eldinn í portinu. „Ég tek þá upp símann og hringi í 112. Svo byrjuðum við á því að það var barið á glugga og gargað á fólk að koma sér út. Fólk var fljótt að koma sér út, sumir léttklæddir. „Það var náttúrulega með börn sem örugglega hafa verið sofandi, tekin upp úr rúmunum og beint út,“ segir Andrea.

Rauði krossinn í næsta húsi

Slökkvilið var fljótt á staðinn og Rauði krossinn á Akranesi opnaði aðstöðu sína fyrir fólki. Það var ekki langt að fara því Rauði krossinn er í næsta húsi. Þar var boðið upp á kaffi og veitingar meðan gengið var úr skugga um að allir hefðu náttstað. Fólk mátti ekki gista í fjölbýlishúsinu í nótt en fékk að gista hjá aðstandendum og kunningjum.

Margir íbúanna eru upprunalega frá Póllandi en hafa búið hér lengi. Viðmælendur fréttastofa segja það sýna styrk og samheldni pólska samfélagsins á Akranesi að fólk var fljótlega búið að bjóða fram húsnæði fyrir alla þá sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gærkvöld og gátu ekki sofið þar vegna eldsins.

Slökkviliðsmenn að störfum.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi