Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölmiðlafyrirtæki fá að hámarki 100 milljóna stuðning

Mike Pence, varaforforseti Bandaríkjanna, heldur óvæntan blaðamannafund á tröppunum við Höfða eftir fundi með forseta Íslands, utanríkisráðherra og borgarstjóra.
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Stærri fjölmiðlafyrirtæki fá meira í sinn hlut samkvæmt reglugerð menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla en þeir hefðu fengið ef frumvarp hennar um sama efni hefði orðið að lögum. Stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins geta fengið að hámarki 100 milljónir króna í styrk úr ríkissjóði samkvæmt nýrri reglugerð sem menntmálaráðherra gaf út á föstudag. Í lagafrumvarpi var gert ráð fyrir 50 milljóna hámarki.

Stjórnvöld setja 400 milljónir króna í að styrkja einkarekna fjölmiðla vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins. Samkvæmt reglugerð menntamálaráðherra getur hvert fjölmiðlafyrirtæki fengið allt að fjórðung af launum og verktakagreiðslum vegna fréttamiðlunar endurgreiddan, upp að eitt hundrað milljóna króna hámarki. Í frumvarpi menntamálaráðherra sem ekki náði fram að ganga var miðað við fimmtíu milljóna króna þak.

Aðallega stuðningur við þrjú fyrirtæki

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gagnrýnir þá breytingu að nú sé þakið hækkað þannig að stærri hluti renni til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna.

„Þarna átti að vera styrkjakerfi sem átti að stuðla að fjölbreytni og fjölræði og gagnast meðal annars litlum miðlum úti um allt land en á síðustu stundu, eftir næstum fjögurra ára ferli, er ákveðið að í fyrstu úthlutun eigi að úthluta, eins og þetta horfir við mér núna, til þriggja fjölmiðla,“ segir Þórður Snær. Hann segir að nú sé fyrst og fremst verið að styrkja Árvakur, Torg og Sýn. Það segir hann að skekki samkeppnisstöðu annarra fjölmiðla. „Þeirra lífsbarátta verður einfaldlega mun erfiðari. Þetta snýst ekki bara um þá peninga sem minni miðlar, staðarmiðlar víðs vegar um landið og sérhæfðari miðlar fá ekki, heldur er verið að verðlauna þá miðla sem eru í óarðbærum rekstri og halda uppi bjögun fjölmiðla.“

Löngu kominn tími á mótvægisaðgerðir

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að það sé fyrir löngu kominn tími á mótvægisaðgerðir hjá ríkinu vegna þess almannahlutverks sem stóru fréttastofurnar gegna.

„Við gerum fréttastofuna alveg sér upp hérna og þetta skiptir miklu máli í sambandi við þann rekstur,“ segir Heiðar. „Við erum að reka í raun og veru stærsta fjölmiðil landsins. Við náum til flestra í gegnum Vísi, í gegnum Bylgjuna og í gegnum Stöð 2 og tengdar stöðvar. Þetta skiptir miklu í kringum það og fréttastofan leikur þar lykilhlutverk.“

Heiðar segur allt sem minnkar misræmi í fjárveitingum fréttastofa skipta máli og vísaði til fjárframlaga til RÚV á fjárlögum.

Greiðslurnar nú eru vegna COVID-faraldursins en áður hafði ríkisstjórnin samþykkt að veita sömu fjárhæð árlega til stuðnings einkareknum fjölmiðlum. Sú löggjöf hefur ekki orðið að veruleika. „Ríkisstjórnin er búin að samþykkja fyrir meira en ári síðan, í kringum vinnu við fjölmiðlafrumvarp, að þessi fjárhæð, 400 milljónir yrði árlega, þannig að ég á von á því að það veitist.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV