Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

Mynd: Auðunn Níelsson / .

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

07.07.2020 - 08:43

Höfundar

Presturinn Hildur Eir Bolladóttir frá Akureyri er nú að ljúka erfiðri geisla- og lyfjameðferð við illkynja krabbameinsæxli í endaþarmi. Batalíkur hennar eru þó miklar og hún horfir keik fram á veginn við hlið ástmanns sín sem hún kynntist við óvenjulegar aðstæður.

Hildur Eir Bolladóttir prestur segist hafa verið rosaleag mikill besservisser sem barn. Hún var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér. „Ég er náttúrulega alin upp af öldruðum foreldrum eins og sagt er. Þau voru reyndar bara nýskriðin yfir fertugt þegar þau áttu mig en ég er langyngst. Ég var rosalega mikið ein með þeim og þau töluðu við mig eins og jafningja.“

Hún segir að kennarar hafi oft verið pirraðir á henni því hún ögraði þeim og vildi rökræða við þá, og systkini sín hafi oft orðið þreytt á henni. „Pabba fannst ég svo fyndin, Lillan alltaf með hnefann á lofti. Þannig hann var ekkert að reyna að stilla mig af, hann hafði gaman af því að fylgjast með mér rökræða við systkyni mín.“ Hann hafi verið viss um að hún ætti eftir að enda á Alþingi. „Þau sögðu að ég hefði verið mökkgremjuleg milli tíu og tólf ára. Ég get alveg trúað því.“ Þegar Hildur Eir var sex ára ætlaði hún að verða prestur, skáld og fiðluleikari, en það var ekki fyrr en eftir stúdentspróf sem hún fór að leiða hugann að hempunni fyrir alvöru. „Það bara gerðist eitthvað, ég segi að það hafi verið köllun. Ég var ekki búin að setja þetta niður á blað eða neitt eða meta það. Allt í einu kom bara einhver tilfinning. Þannig er ég svolítið rekin áfram, af brjóstvitinu og tilfinningum. Sem er oft mjög gagnlegt en stundum ekki.“

Vill vera til staðar á stóru stundunum

Pabbi hennar er prestur en hún segist aldrei hafa langað til að verða prestur eins og hann. „Þó mér fyndist hann frábær og hann væri mér fyrirmynd sem manneskja, þá langaði mig ekki til að vera þessi litúrgíski prestur eins og pabbi.“ Hún hafi þó haldið áfram guðfræðináminu og líkað það betur og betur eftir því sem leið á. „Svo varð ég prestur og hef verið síðustu 14 árin og ég er fyrst núna byrjuð að njóta þess í alvörunni að finna mig í þessu starfi. Ég hafði metnað fyrir að standa mig vel og fann ég átti trú til að miðla af. Ég hef áhuga á fólki og finnst gott að vera til staðar fyrir það, og verið þar sem eitthvað skiptir máli er að gerast, stóru stundirnar í lífi fólks.“ Henni hafi hins vegar lengi fundist hún ekki passa í starfið, að form messanna henti sér ekki, hún hafi verið of bersögul fyrir það.

Í starfi sínu þarf Hildur Eir oft að hlusta á raunir fólks á erfiðum stundum. „Þá uppgötvar maður að allir eru að takast á við eitthvað. Öll reynsla er eiginlega sammannleg. Ég get ekki sagt frá öðru fólki því þá er ég að brjóta trúnað. En svo geng ég í gegnum hluti sem koma líka inn á mitt borð sem prests, skilnaður, alkahólismi, veikindi og annað. Þá veit ég að ef ég tala um það þá veit ég að annað fólk mun hafa gagn af því.“ Það voru mjög sterk viðbrögð þegar að Hildur Eir skildi og fólk var mjög hneykslað á henni. Hún segist allt eins hafa búist við þessu. „Prestur skilur, sá sem er að gefa saman fólk og tala fyrir gildi hjónabandsins. Veita hjónabandsráðgjöf en svo geti ég ekki haldið saman eigin hjónabandi.“

Hún segir skilnaðinn hafa verið mjög sáran og hún hafi upplifað mikla sorg og einsemd. „Ég hef aldrei verið jafn ein á ævinni. Í mesta blörrinu þegar ég náði ekki að horfa á þetta úr fjarlægð var ég stundum farin að hugsa hvort engum þætti vænt um mig og ég ætti ekki neitt inni hjá neinum, að ég væri drullusokkur sem hefði aldrei reynst neinum vel.“ Hún vissi ekki hvernig hún ætti að tala um skilnaðinn en þegar hún var farin að fá smá fjarlægð ræddi hún við fagaðila. „Ég held eftir á að hyggja að ég hafi farið vel í gegnum þetta. Þó ég hafi þjáðst og verið ein, þá gaf ég mér tíma til að vera í mínu híði. Þegar ég fór að tala um þetta var ég komin út úr mestu örvæntingunni og gat talað um þetta af virðingu.“ Hún hafi þess vegna ekki sagt ljóta hluti sem hún hefði séð eftir um fyrrverandi maka eða tengdafjölskyldu. „Því ég bara talaði ekki. Ég var eiginlega bara mállaus fyrstu mánuðina. Svo fannst mér ekki sanngjarnt að leggja þetta á fólkið mitt og þá fór ég til fagaðila.“

„Það skipti mig öllu máli“

Í dag er hins vegar allt annað upp á teningnum og Hildur Eir er ástfangin upp fyrir haus. „Rosalega. Og á yndislegan mann, Kristinn Hreinsson. Hann er ekkill og missti konu sína fyrir fjórum árum úr krabbameini, en ég hitti hann fyrst þegar ég jarðsöng konuna hans.“ Hún vilji þó halda því til haga að hún hafi haldið áfram með sitt líf en hún var þá enn þá gift, og hann hafi átt aðra kærustu í millitíðinni. „En síðan hittumst við aftur, þetta hefur örugglega verið mjög góða saga í saumaklúbbum um það leyti.“ Henni þótti svo mjög vænt um þegar átján ára sonur hennar sýndi henni stuðning, og fannst sagan af því hvernig þau kynntust bara falleg. „Það skipti mig öllu máli, því þögn allra annarra, í henni fannst mér skilaboð um að ég hefði gert eitthvað af mér.“

Hildur Eir segir að sorgin hafa styrkt og dýpkað sambandið. „Það er djúpstæð vinátta og virðing, við erum ekkert lík en samt svo lík. Hann er ellefu árum eldri og á tvær stórar stelpur. Þetta hefur gengið ótrúlega vel.“ Dauðinn hefur alltaf verið henni hugleikinn og á síðasta ári gaf hún út ljóðabókina Líkn. „Ég sagði frá því oft í viðtölum þá að ég hafi verið obsessed af dauðanum frá því ég var barn. Líklega ein ástæða fyrir því að ég gerðist prestur. Ég vildi vera þarna á þessum ögurstundum.“ Þá ólst hún upp í návígi við dauðann vegna þess að pabbi hennar var prestur. „Fólk kom inn á okkar heimili með sínar sorgir. Fólk var að undirbúa útför með pabba, og stundum var mamma með erfidrykkjur inni í húsi. Allt í kringum dauðann er algjörlega eðlilegt.“ Henni hafi aldrei þótt erfitt eða tiltökumál að sinna fólki á dánarbeði eða í sorg. „Ég geri ekkert stórkostlegt þegar ég kem í sorgarhús. Ég er bara ég.“

Varð að treysta á aðra

Hún þvertekur fyrir að hræðast dauðann þrátt fyrir að ganga nú í gegnum erfið veikindi. „Ég er að fatta í þessu ferli að ég á meiri trú en ég hélt. Hvíli algjörlega í því. Ég vil samt ekki deyja, ég elska lífið. Ég á líka unga drengi sem ég vil fylgja til fullorðinsára, svo á maður barnabarn, mann og stjúpdætur, systkin, ég hef alveg ofboðslega mikið til að lifa fyrir. En ég er ekki skelfingu lostin. Þegar þessi greining kom var mér brugðið og ég var sorgmædd og hrædd, en ég vissi ekki alveg við hvað ég var hrædd.“ Henni fannst sem það væri verið að taka af henni stjórnina, hún hafði áður tekist á við geðræna kvilla og kvíða. „En þarna vissi ég að ég yrði að treysta á aðra og gera bara það sem mér væri sagt að gera. Það var ekkert í mínum mætti sem gat unnið á þessu krabbameini.“

Hildur Eir greindist með illkynja æxli í endaþarmi sem var þó ekki búið að dreifa sér, þannig það var meðhöndlanlegt og batalíkur miklar. Hún hafi strax rætt þetta við manninn sinn og fjölskyldu. „Það var engin dramatík, hvergi verið að mála skrattann á vegginn, staðreyndirnar lágu fyrir og þetta var bara verkefni sem við þurftum að takast á við. Þetta er leiðinlegt vesen en við gerum eitthvað gott úr þessu.“ Hún segir að 5-6 greinist með þessa tegund krabbameins á ári en fáir þori að tala um það. „Þessi meðferð sem ég er að fara í gegn um er leiðinleg per se, en það er kannski bara 5-6 vikur. Það eru 80-90 prósenta líkur á að meðferðin dugi ein og sér, ég þurfi ekki að fara í skurðaðgerð.“ Hún er nú að ljúka meðferðinni en hefur verið á hverjum degi í í geislum og lyfjum. „Það fór ótrúlega vel í mig, ég er hraust að upplagi.“

Ekkert merkilegt að tala um endaþarmskrabbann

Hún segir að enginn í sinni nánust fjölskyldu hafi fengið krabbamein. „Svo fæ ég, og ég fæ endaþarmskrabbamein! Auðvitað.“ Hildur segist hafa mjög svartan húmor sem hún telur að komi úr móðurættinni sem er af Vestfjörðum. „Pabbi hafði svona fallegri húmor, hann var Ari Eldjárn en mamma var Dóri DNA.“ Hún telur að það sé algengt að prestar þrói með sér ýktan svartan húmor, „bara til þess að halda sjó.“

Hildur Eir var tvítug þegar hún leitaði fyrst til geðlæknis vegna kvíða og áráttuþráhyggju og byrjaði á lyfjum. „Ég átti enga fyrirmynd í þessu. Það var ekkert í umhverfinu sem var opið fyrir þessu, þegar ég hugsa til baka finn ég til með þessari stelpu.“ Hún hefur eftir þetta verið ötul að ræða veikindin opinberlega sem mörgum hafi þótt ekki við hæfi. „Mér finnst ég ekkert merkileg að tala um þennan endaþarmskrabba, það er bara eins og að drekka vatn. Ég er 42 ára og hef engu að tapa. En að hafa verið tvítug stelpa og var alltaf að reyna að fræða, það er eitt það merkilegasta sem ég hef gert.“

Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við Hildi Eir Bolladóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“

Leiklist

Leikhúsið á að hjálpa til við uppeldi barna

Mannlíf

Óvenjugóð messusókn um jólin

Mannlíf

„Almenningssalerni eru mikill óvinur minn“