Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ákærður fyrir að nauðga fjórum konum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Karlmaður á fimmtugsaldri er ákærður fyrir að hafa nauðgað fjórum konum sem komu til hans í meðhöndlun vegna stoðkerfisvanda. Rannsókn málsins hófst árið 2018, en málin eru frá árinu 2007 til 2017.

Á annan tug kvenna kærði manninn

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að á þriðja tug kvenna hafi leitað til lögmannsins Sigrúnar Jóhannsdóttur. Á annan tug kvenna kærði manninn til lögreglu fyrir kynferðisbrot, og leiddu mál fjögurra kvenna til ákæru. Hann er ákærður fyrir nauðgun í öllum tilvikum. Í Fréttablaðinu segir að tveir sjúkranuddarar hafi verið dómkvaddir til að meta hvort og að hvaða marki háttsemi mannins samræmdist viðurkenndum aðferðum í nuddfræðum.

Vísaði því á bug að þjónustan hafi verið seld sem sjúkranudd

Nokkrar konur greindu frá því í yfirheyrslum að maðurinn hafi meðhöndlað stoðkerfisvanda þeirra í gegnum leggöng í einhverjum tilfellum. Skipti þá engu hvar konurnar kenndu sér meins. 
Verjandi mannsins mótmælti matsgerð nuddarana, þar sem skjólstæðingur hans væri ekki sjúkranuddari og hafi ekki selt þjónustu sína sem slíkur. Verjandinn vísaði ásökunum á bug í viðtali við Fréttablaðið árið 2018. Hann sagði manninn hafa starfað við sérstaka líkamsmeðhöndlun í hálfan annan áratug og viðskiptavinir á öllum aldri og af báðum kynjum hafi verið ánægðir með störf hans. 
Fréttablaðið segir málið hafa verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness, og verða þinghöld lokuð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV