
Kjarnafæði og Norðlenska sameinast
Viðræður staðið yfir síðan 2018
Formlegar viðræður um samruna Norðlenska og Kjarnafæðis hófust í ágúst 2018. Áður höfðu eigendur fyrirtækjanna rætt óformlega um sameiningu og hafa því rætt saman í um það bil ár. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, sem er í eigu um 500 bænda á Íslandi.
Bregðast við breytingum í matvælaiðnaði
„Með samruna félaganna eru eigendur að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar undanfarin misseri. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði,“ segir í tilkynningu.
Umfangsmikil starfsemi
Norðlenska rekur stórgripasláturhús og kjötvinnslu á Akureyri, en slátrun og afurðavinnsla sauðfjár er á Húsavík. Þá rekur Norðlenska sláturhús á Höfn í Hornafirði og söluskrifstofu í Reykjavík. Starfsemi Kjarnafæðis fer að mestu fram á Svalbarðseyri. Auk þess á félagið SAH-Afurðir á Blönduósi, sláturhús og kjötvinnslu, og um þriðjungshlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga.
Samkomulag um samruna félaganna er með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og samþykki hluthafafundar Búsældar. Íslandsbanki veitir samrunafélögunum ráðgjöf í samrunaferlinu.