Högglengsti sigurvegarinn í sögu PGA

epa08167041 Bryson Dechambeau of the US in action during the final round of Omega Dubai Desert Classic 2020 Golf tournament at Emirates Golf Club in Dubai United Arab Emirates, 26 January 2020.  EPA-EFE/ALI HAIDER
 Mynd: EPA

Högglengsti sigurvegarinn í sögu PGA

06.07.2020 - 13:06
Bryson DeChambeau sló met þegar hann vann Rocket Mortgage Classic-mótið á PGA-mótaröðinni í golfi í gær. Upphafshögg DeChambeau á mótinu voru að meðaltali 320 metrar en aldrei áður hefur sigurvegari á PGA-móti verið með slíka högglengd.

DeChambeau lék á 65 höggum í gær, eða á sjö höggum undir pari, og hann endaði á þremur höggum á undan landa sínum Matthew Wolff sem varð annar. Eins og sjá má var stutta spilið líka í fínu lagi hjá DeChambeau um helgina.

Bætti á sig 20 kílóum af vöðvum

DeChambeau sagði eftir sigurinn í gær að hann hefði sérstaklega mikla þýðingu fyrir sig. Síðustu mánuði hefur DeChambeau unnið markvisst að því að bæta á sig miklum vöðvamassa og hefur hann þyngst um 20 kíló á síðustu níu mánuðum. Það hefur skilað sér í feykalega kraftmiklum og löngum upphafshöggum. 

„Þetta er tilfinningaþrunginn stund fyrir mig,“ sagði hinn 26 ára DeChambeau eftir sigurinn. „Ekki síst vegna þess að upp á síðkastið hef ég breytt líkama mínum og einnig hugarfarinu. Nú hef ég sýnt fram á það er hægt að leika golf á annan hátt en hingað til hefur tíðkast,“ sagði DeChambeau.

Að neðan má sjá lista yfir lengd upphafshögga kappans á mótinu um helgina en 377 jardar samsvara um 345 metrum. 

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa hjá DeChambeau en hann hefur nú verið á meðal tíu efstu kylfinga á síðustu sjö mótum PGA-mótaraðarinnar. 

Sigurinn í gær var sjötti sigur kappans á PGA-mótaröðinni á ferlinum.