Bankster - Guðmundur Óskarsson

Mynd: Forlagið/Ormstunga / Forlagið/Ormstunga

Bankster - Guðmundur Óskarsson

06.07.2020 - 11:50

Höfundar

„Þetta er bók fyrir góða tíma, frekar en slæma tíma,“ segir Guðmundur Óskarsson, höfundur Bankster sem er bók vikunnar á Rás 1. Bókin, sem skrásetur líf bankamanns sem missir starfið í hruninu, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2009.

Sögusvið Banksters er bankahrunið haustið 2008.  Sagan segir frá Markúsi og sambýliskonu hans, Hörpu sem missa bæði vinnuna eftir hrunið, hann hjá Landsbankanum, hún hjá Kaupþingi. Vinur Markúsar hvetur hann til að halda dagbók til þess að vinna úr tillfinningum sínum í atvinnuleysinu sem ekki virðist sjá fyrir endan á. Harpa lætur aftur á móti ekki deigan síga og fær nýtt starf sem afleysingakennari í grunnskóla.

Bókin er kyrfilega staðsett í tíma, frá 2. október 2008 til sumardagsins fyrsta, 23. apríl 2009. Dagbók Markúsar tengist því sem gerist í samfélaginu, búsáhaldabylting og umrót í samfélaginu en Markús sjálfur upplifir sig ekki sem hluta af þeim hópi sem getur leyft sér að reiðast yfir hömluleysi bankamannanna. Markús leitar skjóls í dagbókinni sem brátt verður að minnisbók og skáldleg lýsing á viðburðum hins örlagaríka veturs, 2008-2009. Dagbókin lýsir umkomuleysi manns sem, ásamt fjölda annarra, fellur útbyrðis eftir strand fjármálakerfisins. Þrátt fyrir vini og fjölskyldu virðist hann eiga erfitt með að klóra sig út úr breyttum aðstæðum og óvissa og ákvörðunarfælni heltaka hann. Sjálfsmyndin er brotin, heimsmyndin er hrunin.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að hlusta á höfund lesa fyrsta kafla bókarinnar og viðtal við höfund.

Jóhannes Ólafsson ræddi við Viðar Þorsteinsson, heimspeking og Guðrúnu Baldvinsdóttur, bókmenntafræðing, um bókina. Hlusta má á þáttinn hér að neðan.

 

Mynd: Ormstunga / Ormstunga