Þurftu að tjalda í stofunni til að skapa sér einkarými

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erlent starfsfólk í ferðaþjónustu á Íslandi er oft hrætt við að leita réttar síns vegna brota á kjarasamningum. Eftirliti stjórnvalda er einnig ábótavant, en atvinnurekendur sem stunda brot sín af ásetningi forðast samtök sem standa vörð um rétt launafólks, segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Algengustu brot atvinnurekenda snúa að vangreiddum launum og frídögum. Erlent starfsfólk hafi meðal annars verið skikkað í launalaust leyfi meðan minnst er að gera á veturna, en á sumrin er oft ætlast til að það sé til taks allan sólarhringinn.

Rauði þráðurinn í skýrslunni er að erlent starfsfólk er oft hrætt við að leita réttar síns og vantreystir stéttarfélögum vegna orðspors sem fer af þeim í heimalandinu. Þá er bent á aðgerðarleysi stjórnvalda, eins og skort á öryggisneti fyrir starfsfólk sem er háð vinnuveitanda - til dæmis er varðar húsnæði. Það er sagt í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Dæmi er um að fjölda starfsfólks hafi verið komið fyrir í lítilli íbúð og það ákveðið að tjalda í stofunni til þess að skapa sér meira einkarými. 

Jóhannes Þór Skúlason
 Mynd: Þór Ægisson
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Höfum vitað lengi að það er eftirlitsþörf

Engin viðurlög eru gagnvart atvinnurekendum sem brjóta kjarasamninga og benda skýrsluhöfundar á að efla þurfi eftirlit opinberra stofnana með slíkum brotum.

„Þessi skýrsla í rauninni staðfestir það að það er eftirlitsþörf. Það höfum við vitað lengi. Hún hins vegar staðfestir líka það sem við höfum bent á margt oft að það er lítill hluti fyrirtækja í ferðaþjónustu sem stundar einhver ásetningsafbrot í þessa veru,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í skýrslunni er bent á að flest kjarasamningsbrot tengjast þekkingarleysi atvinnurekenda sem rekja má til gullgrafaraæðis sem átti sér stað innan greinarinnar. Það eru hins vegar ásetningsbrotin sem eru alvarlegri, að sögn Jóhannesar.

„Því miður er það nú þannig að þeir sem stunda ásetningsbrot forðast samtök eins og SAF, sem reyna að fylgja því eins vel eftir og þau geta að allir geri hlutina eins og á að gera samkvæmt lögum og reglum og kjarasamningum. En það skiptir líka mjög miklu máli að launafólk kynni sér sinn rétt.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi