Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Björgunarskip lýsir yfir neyðarástandi um borð

04.07.2020 - 02:21
Erlent · Afríka · Flóttamenn · Ítalía · Malta · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: SOS Méditerranée
Áhöfn björgunarskipsins Ocean Viking hefur lýst yfir neyðarástandi um borð. Sex farþegar hafa reynt að fyrirfara sér og áflog hafa orðið um borð. Skipið hefur verið utan Sikileyjar síðustu daga, eftir að beiðni skipverja um að leggjast að bryggju hefur verið hafnað á sjö stöðum á Ítalíu og Möltu undanfarna viku. 180 flóttamenn sem bjargað var af Miðjarðarhafinu eru um borð í skipinu. 

Einn farþeganna reyndi að hengja sig, tveir stukku fyrir borð en var bjargað aftur, og þrír voru stöðvaðir áður en þeir stukku fyrir borð. Þá hafa aðrir farþegar sýnt merki um andlega ofsaþreytu, þunglyndi og geðshræringu, sem hafa brotist út með slagsmálum meðal þeirra. 

Fólkinu var bjargað úr óhaffærum bátum í fjörum aðgeðrum dagana 25. til 30. júní. Þunguð kona er meðal flóttamannanna og 25 börn, þar af 17 sem eru án foreldra eða ættingja.

Yfir 100 þúsund reyndu að komast yfir Miðjarðarhafið frá Afríku til Evrópu í fyrra. Rúmlega 1.200 þeirra létu lífið við tilraunina, að sögn alþjóðasamtaka um farand- og flóttafólk. Ítalía og Malta saka einkaaðila sem sjá um björgunaraðgerðir um að hvetja smyglara í Líbíu til að halda störfum sínum áfram.