Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Arnarunginn er ungur og óreyndur fálki

04.07.2020 - 12:04
Arnarungi sem lögreglan á Vestfjörðum handsamaði
 Mynd: Lögreglan á Vestfjörðum - Facebook
Fugl, sem lögreglan á Vestfjörðum handsamaði í gær og talinn var vera arnarungi er ungur fálki. Þetta segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur sem bar kennsl á tegundina af mynd á ruv.is.

„Arnarungi er fiðraðri og stærri á þessum árstíma. Þeir eru heldur ekkert farnir á stjá, þeir hreyfa sig lítið fyrr en í ágúst,“ segir Jóhann Óli. Hann segir að líklega hafi fálkinn sem um ræðir fæðst í fyrrasumar.

„Hann  virðist  vera fleygur og fullvaxinn. Ungir fálkar geta flakkað víða, en þeir eru óreyndir og hálfgerðir klaufar og geta lent í ýmsu eins og mér sýnist þessi hafa gert, en hann virðist hafa lent í grút eða einhverjum slíkum hrakningum,“ segir Jóhann Óli.

Fuglinn var handsamaður í nágrenni Bolungarvíkur seinnipartinn í gær og samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum sást hann á rölti skammt fyrir utan bæinn. Hann er nú í umsjá Náttúrustofu Vestfjarða þar sem hann nýtur aðhlynningar.

Jóhann Óli segir að hugsanlega hafi fálkinn ungi átt miður skemmtileg samskipti við fýl sem hafi ælt á hann. „Eða lent í olíu. Hann gæti líka hafa verið að éta selshræ og þannig atast út.“

Jóhann Óli segir að þegar fuglar lendi í slíkum hremmingum þurfi að hreinsa þá til að þeir geti flogið. „Þeir eru þá oftast sendir í Húsdýragarðinn og hreinsaðir þar,“ segir hann.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir