Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í sóttkví þegar komið er heim til Íslands

Mynd: skjáskot / RÚV
Sýnataka á landamærum er ekki nóg fyrir þá sem búsettir eru hérlendis og verður þeim gert að fara í sóttkví eftir komuna til landsins. Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt þessa tillögu sóttvarnalæknis. Einn smitaður ferðamaður er komin í einangrun í farsóttarhúsi. Sýnataka á Keflavíkurflugvelli stefnir í að fara yfir 2000 sýna viðmiðið í dag.

Veikleiki ástæða stífari reglna

Reynslan af skimun á landamærum hefur leitt í ljós þann veikleika að hætt er við að nýlega smitaðir komist ógreindir inn í landið og að þeir sem hafi hér útbreytt tengslanet geti smitað fjölda manns. Svo segir sóttvarnalæknir í minnisblaði til ráðherra. 

Til þess að lágmarka áhættuna leggur hann til að Íslendingum og öðrum, sem búsettir eru hér, verði gert að fara í 14 daga sóttkví og landamæraskimun. Eftir sýnatöku fari þeir í sóttkví. Og eftir fjóra til fimm daga fari þeir aftur sýnatöku og verði sýnið neikvætt mega þeir hætta í sóttkví. Sóttvarnalæknir skipuleggur sýnatökuna. Ekki þarf að borga fyrir seinni sýnið. Þetta tekur gildi ekki síðar en 13. júlí þ.e. annan mánudag. 

Meira en 2000 farþegar í dag

Í dag stefndi í að fleiri en 2000 farþegar kæmu til landsins um Keflavíkurflugvöll: 

„Greiningargetan á sýnunum er 2000 en við gátum gert ráðstafanir í þessu tilviki,“ segir Rögnvaldur Ólafsson deildarstjóri hjá Almannavörnum. 

Ferðamaður kominn í einangrun

Í farsóttarhúsið við Rauðarárstíg hefur bæst við ferðamaður frá Albaníu sem kom til landsins frá Vínarborg í gær. Hann er með virkt smit og þarf í tveggja vikna einangrun. Verið er að kanna hvort ferðamaður sem kom með Norrænu í gær sé með virkt smit. Íslendingur sem kom með skipinu var í einangrun um borð því dönsk sýnataka var jákvæð. 

„En svo eftir að hann kom heim og eftir sýnatöku hér þá kemur í ljós að hann er ekki með virkt smit.“

20 til 30 í sóttkví vegna seinna hópsmitsins

Smit úr tveimur konum sem greindust með jákvæð sýni nokkrum dögum eftir komu hafa borist í sjö manns innanlands og rúmlega 400 hafa þurft í sóttkví. Síðast í dag þurfti fólk í sóttkví eftir að smit kom upp hjá Geðræktarmiðstöð Suðurnesja vegna síðara smitsins. 

„Út af því máli eru komin milli 20 og 30 í heildina sem eru í sóttkví.“

Smitrakning gæti orðið hálfgerð martröð

Rögnvaldur segir sóttvarnayfirvöld hafa áhyggjur af óskipulögðum samkomum til dæmis þegar fólk hópast saman eftir að vínveitingahús loka: 

„Smitrakning í svoleiðis gæti orðið hálfgerð martröð í rauninni því þá vitum við ekki nákvæmlega hverjir voru á staðnum eða hvenær.“

Galið að ráðast á smitað fólk

Eftir að smitin komu upp síðustu vikur er að því er virðist þolinmæði sumra á þrotum þrotið en svo var ekki í vor þegar faraldurinn stóð sem hæst. 

„Það eru brögð að því að fólk utan úr bæ sé að hafa samband við þessa einstaklinga sem eru veikir og skammast í þeim. Þetta er í rauninni bara hálfgalið að vera að ráðast á fólk sem er að eiga við veikindi að bæta þessu ofan á það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Rögnvaldur Ólafsson.