Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erdogan vill breyta Ægisif í mosku

03.07.2020 - 15:50
epa08522686 A woman wearing a hijab takes pictures in front of the Hagia Sophia Museum in Istanbul, Turkey, 02 July 2020. According to media reports, a Turkish court delayed the decision on whether the 1,500-year-old Unesco World Heritage site Hagia Sophia can be converted into a mosque, as Turkey's President Erdogan called for.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, vísar á bug gagnrýni á að vilja breyta Hagia Sophia, einu þekktasta kennileiti landsins úr safni í mosku. Tyrkneski stjórnlagadómstóllinn hefur málið til skoðunar.

Erdogan lýsti því yfir í dag að afskipti útlendinga af málinu væru ekkert annað en árás á sjálfstæði Tyrklands. Hugmyndum hans hefur víða verið mótmælt innan lands sem utan. Í vikunni blandaði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sér í málið og bað stjórnvöld um að breyta Hagia Sophia ekki í mosku. Stjórnlagadómstóllinn hefur fimmtán daga til að úrskurða hvort forsetanum leyfist að breyta hlutverki safnsins.

Hagia Sophia, eða Ægisif eins og hún nefnist á íslensku, var reist á sjöttu öld sem dómkirkja aust-rómverska heimsveldisins. Það var hún fram til 1453 þegar Tyrkir lögðu Konstantínópel, síðar Istanbúl undir sig. Árið 1935 var henni síðan breytt í safn að tilstuðlan Mustafa Kemal Ataturks, stofnanda og fyrsta forseta tyrkneska lýðveldisins. Erdogan sagði í fyrra að það hefðu verið veruleg mistök.

Ægisif er eitt helsta kennileiti Istanbúl. Þangað leggja fleiri ferðamenn leið sína en á nokkurn annan stað í Tyrklandi.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV