Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bilunin í Baldri meiri en talið var

02.07.2020 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Bilun í Breiðafjarðarferjunni Baldri reyndist meiri en talið var í fyrstu Framkvæmdastjóri Sæferða segir þó að það séu dagar frekar en vikur þar til ferjan siglir á ný.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, hrósar happi yfir því að ákveðið var að draga ferjuna í Stykkishólm, fremur en að sigla henni fyrir eigin vélarafli þar sem þá hefðu getað orðið enn meiri skemmdir á vélinni. Engin varavél er í Baldri.

„Upphaflega var verið að vona að það væri miðjan í túrbínunni sem hefði farið og var það sem við keyptum upphaflega og pöntuðum. En svo er eitthvað afleitt tjón sem hefur orðið í leiðinni,“ segir Gunnlaugur.

Særún siglir í stað Baldurs

Nú er því beðið fleiri varahluta sem voru pantaðir frá Danmörku. Á meðan Baldur er bilaður siglir ferjan Særún milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Særún er minni en Baldur, tekur 130 farþega og flytur ekki bíla. Gunnlaugur vonar að Baldur komist í gagnið fyrr en síðar.

„Við tökum stöðuna seinna í dag. Við fáum fréttir upp úr hádeginu af stöðunni með varahlutina. Ég þori ekki að nefna bjartsýnisspána en þetta er spurning um einhverja daga.“

Finna lausnir á vatnsflutningum þegar þar að kemur

Baldur sér alla jafna fyrir því að nóg neysluvatn sé í Flatey. Fyllt var á birgðir áður en Baldur var togaður í Stykkishólm og Gunnlaugur segir að þær dugi fram yfir helgi. Verði Baldur ekki kominn í gagnið þá verði fundnar aðrar lausnir á vatnsflutningum í samráði við Flateyjarveitu.