Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkjaþing samþykkir hertar aðgerðir gegn Kína

02.07.2020 - 01:51
epa07275804 US Speaker of the House Nancy Pelosi (C) sits between House Appropriations Committee Chairwoman Nita Lowey (L) and House Ways and Means Committee Chairman Richard Neal (R), during a photo opportunity with House committee chairs of the 116th Congress, on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 11 January 2019.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Richard Neal, formaður allsherjarnefndar, lengst til hægri. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar fyrir miðju og lengst til vinstri situr Nita Lowey, formaður húsnæðisnefndar. Mynd: EPA
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti einróma að beita þungum refsiaðgerðum gegn kínverskum embættismönnum og lögreglunni í Hong Kong vegna nýrra öryggislaga gagnvart íbúum Hong Kong. Á fyrsta degi nýju laganna voru nokkur hundruð handtekin í héraðinu.

Lögin banna andóf í garð kínverskra stjórnvalda, niðurrifsstarfsemi og kröfur um aðskilnað Hong Kong frá Kína. Þau eru sögð eiga að sporna gegn hryðjuverkum og óeirðum, en hafa verið gagnrýnd fyrir að brjóta í bága við sjálfsstjórnarréttindi Hong Kong. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á þriðjudag að Bandaríkjastjórn ætli að beita hörðum refsiaðgerðum vegna laganna. Nú hafa báðar deildir Bandaríkjaþings samþykkt að herða aðgerðir, en frumvarpið verður að fara aftur fyrir öldungadeildina áður en það öðlast fullt samþykki.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði þegar lögin voru samþykkt að það væri sorglegt að sjá kínversku stjórnina halda að hún geti gert það sem hún vill án refsingar og reyna að kveða niður lýðræðisandann í Hong Kong. Ef Bandaríkjaþing láti viðskiptahagsmuni þvælast fyrir mannréttindum í Kína, þá missi þingið réttinn til að berjast fyrir mannréttindum annars staðar í heiminum, sagði Pelosi.