Vanskil og gjaldþrot gætu aukist með haustinu

01.07.2020 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áhrif farsóttarinnar á fjármálastöðugleika eru ekki komin fram að fullu og samdráttur gæti varað lengur en vonir stóðu til. Fjöldi fólks sem er á uppsagnarfresti sér fram á tekjutap.

Hrun ferðaþjónustunnar blasir við og samdráttar gætir í mörgum atvinnugreinum samkvæmt skýrslu um fjármálastöðugleika sem kynnt var í Seðlabankanum í morgun. Seðlabankinn metur eiginfjár- og lausafjárstöðu stóru bankanna þriggja sterka, og að þeir séu vel í stakk búnir til að standast efnahagslægðina. Fjármálaráðherra segir aðgerðir stjórnvalda hafa gefið fyrirtækjum súrefni og fjármálafyrirtækjum svigrúm til að bregðast við.

„Það er auðvitað ekki gott að segja nákvæmlega um fjölda gjaldþrota eða hversu margir lenda í rekstrarerfiðleikum en við sjáum það á atvinnuleysistölunum að við búum í breyttu umhverfi. Þegar fyrirtæki verða fyrir 70, 80 eða 90 prósent tekjutapi, þá hafa okkar vonir staðið til þess að það væri tímabundið, en ef það dregst á langinn þá er því miður ekki líklegt að slík fyrirtæki eigi sér sömu framtíð og áður var. “ segir Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra.

Ríkari kröfur til bankanna eftir efnahagshrunið 

Seðlabankastjóri segir að vaxtalækkun og þær aðgerðir sem gripið hafi verið til vegna kórónuveirunnar hafi skilað tilætluðum árangri. Útlit sé fyrir breytta neyslu á innanlandsmarkaði þar sem eftirspurn íslendinga eftir vörum sé frábrugðin eftirspurn erlendra ferðamanna.

„Þetta verður væntanlega samdráttur á þessu ári, við erum að sjá mikið atvinnuleysi. Það sem okkur hefur heppnast er að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika, gengið er stöðugt núna. Það hefur leitt til þess að við erum að ná betur utan um þetta. Þær fréttir sem við erum að heyra, frá Bandaríkjunum sem dæmi um að faraldurinn hafi tekið sig upp eru ekki góðar. Við gætum alveg séð að veröldin verði lengur að komast í samt lag en við höfum gert ráð fyrir.“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Ásgeir segir jafnframt að bankarnir séu vel í stakk búnir til að takast á við efnahagslægð.

„Það voru gerðar mjög  ríkar kröfur til þeirra um eigið fé og líka um lausafé, og það er að koma okkur til góða núna.“

Er það að einhverju leyti lærdómur af efnahagshruninu?

„Já það er það.“ segir Ásgeir.

Verður að hafa tekjur til að greiða af lánum

Miklar hópuppsagnir voru í vor, sér í lagi í ferðaþjónustu. Viðbúið er að áhrif þeirra komi fram á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði níu prósent á árinu, samanborið við 3,6 prósent í fyrra. Í bankahruninu náði atvinnuleysi mest 7,6 prósentum árið 2010.  Seðlabankastjóri segir það áhyggjuefni ef vanskil aukast með haustinu. 

„Þú verður að hafa tekjur til að greiða af lánunum þínum, það gæti alveg komið upp einhver meiri vanskil í haust vegna þess og því er lykilatriði að okkur takist að koma hagkerfinu aftur af stað. Tryggja störf og nýtt tekjuflæði.“ segir Ásgeir.

Undanfarnar vikur hafa þrjár skýrslur boðað samdrátt í hagkerfi landsins á þessu ári. OECD gerir ráð fyrir 11 prósenta samdrætti, þjóðhagsspá Hagstofunnar um átta prósent og Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um átta prósent.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi