Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðherra segir af sér eftir fimm daga í embætti

01.07.2020 - 00:16
epa07613377 Brazilian President Jair Bolsonaro takes part in the signing of the National Policy of Regional Development Decree, in Brasilia, Brazil, 30 May 2019.  EPA-EFE/Joedson Alves
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Mynd: EPA-EFE - EFE
Nýskipaður menntamálaráðherra Brasilíu hætti störfum í dag, vegna ásakana um að hann hafi logið til um fræðistörf sín. Carlos Alberto Decotelli hafði gegnt embættinu í fimm daga, og er þriðji menntamálaráðherrann sem segir sig úr embætti í eins og hálfs árs stjórnartíð Jair Bolsonaros, forseta Brasilíu.

Decotelli varð í síðustu viku fyrsti svarti ráðherrann í stjórn Bolsonaros. Hann tók við af Abraham Weintraub, sem sagði af sér um miðjan mánuðinn eftir fjölda hneykslismála. Það sem felldi Decotelli voru fullyrðingar hans um að hann væri með meistaragráðu frá Getulio Vargas stofnuninni í Brasilíu, doktorsgráðu frá Rosario-háskólanum í Argentínu, og hafi stundað rannsóknir að doktorsnámi loknu við háskólann í Wuppertal í Þýskalandi. 

Leiðrétt strax í síðustu viku

Þegar á föstudag barst tilkynning frá Rosario-háskóla um að Decotelli hafi aldrei hlotið doktorsnafnbót þar, og hann hafi aldrei varið lokarannsókn sína. Eins kom yfirlýsing frá háskólanum í Wuppertal þar sem greint var frá því að hann hafi enga gráðu þaðan. Þá var hann sakaður um ritstuld í námi sínu í Brasilíu.

Fjöldi ráðherra farinn á fyrri hluta kjörtímabilsins

Bolsonaro gortaði sig af glæsilegri ferilskrá Decotellis þegar ráðning hans varð opinber í síðustu viku. Nú þarf hann hins vegar að leita að fjórða menntamálaráðherranum í stjórn sína.

Um tugur ráðherra hefur verið rekinn eða hætt frá því Bolsonaro tók við embætti í ársbyrjun í fyrra. Ástæðan er yfirleitt hneykslismál eða samstarfsörðugleikar við forsetann. Tveir heilbrigðisráðherrar hafa farið úr stjórn Bolsonaros síðan kórónuveirufaraldurinn braust út í landinu.