Predikarastelpan - Tapio Koivukari

Mynd: bókmenntahátíð/Jórunn Sigur / bókmenntahátíð/Jórunn Sigur

Predikarastelpan - Tapio Koivukari

01.07.2020 - 08:00

Höfundar

Bók vikunnar er finnsk, söguleg skáldsaga, Prédikarastelpan, eftir Tapio Koivukari sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar. Sögusviðið er Finnland eftirstríðsáranna þar sem ógnir kalda stríðsins og trúarhiti renna saman í samfélagi sem er í mikilli upplausn.

Umsjónarmaður þáttarins bók vikunnar er Auður Aðalsteinsdóttir og sunnudaginn, 17. september ræðir hún við ljóðskáldið Sigurlín Bjarney Gísladóttur og Hjalta Snær Ægisson bókmenntafræðing um þessa bók.

Hér má hlusta á höfundinn, Tapio Koivukari, lesa upphaf bókarinnar sem og kafla þar sem trúarsamkoma á heimili predikunarstelpunnar, Tuliiki, er undirbúin. Á milli lestranna er rætt við Tapio um verkið sem er það síðasta í þríleik þar sem hann hefur fjallað um stríðin sem Finnar áttu á fyrri hluta 20. aldar bæði innbyrðist og við utanaðkomandi sem og afleiðingar slíkra átaka.

Prédikarastelpan er þriðja og síðasta bókin í  þríleik Tapios um fólk í sveitum Finnlands og síðari heimstyjöldina þegar Finnar háðu einnig sitt eigið stríð við Rússa, svokallað framhaldsstríð. Þríleikurinn fjallar einkum um tímann eftir átökin, þegar þarf að koma reiðu á upplausnina. Fyrsta bókin Yfir hafið og í steininn segir frá Irmlendingum, finnskumælandi þjóðarbroti í Rússlandi, sem barðist að hluta með Finnum gegn Sovétmönnum í framhaldsstríðinu  og treystu að því loknu hvorki Sovétmönnum né Finnum og flýðu margir yfir til Svíþjóðar oft með aðstoð Finna. Önnur bók þríleiksins segir frá liðhlaupum finnska hersins. Finnar hafa löngum litið á sig sem miklar stríðshetjur enda átti landið í miklum átökum við grannana í austri og innbirðis á fyrri hluta 20. aldar.  Þeir Finnar voru þó til sem ekki vildu taka þátt í þessum vopuðu átökum og flúðu inn í skógana. Saga Tapios Koivukari um liðhlaupana er saga þeirra. Síðasta bók þríleiksins er svo Prédikarastelpan, sem byggir á sannsögulegum viðburðum auk þess sem Tapio byggir á eigin reynslu. 

Fyrir Predikarastelpuna fékk Tapio Koivukari Runebergverðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Finna, árið 2016.

Áður hafa komið út á íslensku tvær bækur Tapios Koivukari Yfir hafið og í steininn og Ariasman — frásaga af hvalföngurum og gerist sú skáldsaga á Íslandi. Fengu báðar þessar bækur frábærar viðtökur lesenda jafnt sem gagnrýnenda. 

Í kringum aldamótin síðustu var Tapio Koivukari búsettur á Íslandi  og hefur hann skrifað bók um þá reynslu sína. Á meðan á Íslandsdvöl hans stóð byrjaði hann að fást við þýðingar og hefur síðan orðið einn mikil­virkasti þýðandi íslenskra bókmennta á finnska tungu. Meðal íslenskra rithöfunda sem Tapio hefur þýtt á finnsku eru Vigdís Grímsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Friðrik Erlingsson, Þórarinn Eldjárn, Einar Kárason og Guðbergur Bergsson.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild hér:

 

Mynd: Sæmundur / Sæmundur
Auður Aðalsteinsdóttir ræðir við ljóðskáldið Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og Hjalta Snæ Ægisson bókmenntafræðing um bókina.