Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pompeo hótar aðgerðum gegn Kína

01.07.2020 - 01:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, boðar nýjar aðgerðir gegn Kína vegna samþykktar nýrra öryggislaga er varða Hong Kong. Hann segir þetta sorglegan dag fyrir Hong Kong og frelsisdýrkendur í Kína. Í yfirlýsingu Pompeo segir að Donald Trump forseti hafi ákveðið að afnema stefnumál gagnvart sérstakri stöðu Hong Kong, með örfáum undantekningum. Bandaríkin ætli ekki að sitja hjá þegar Kínverjar setja Hong Kong undir járnhælinn sinn. 

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, tjáði sig um öryggislögin við athöfn í morgun þar sem því var fagnað að 23 ár eru síðan Bretar létu Hong Kong af hendi til Kína. Hún sagði lögin þau mikilvægustu í sambandi kínversku stjórnarinnar og héraðsstjórnarinnar í Hong Kong frá því Hong Kong varð aftur hluti af Kína. 

Hvetja til mótmæla í dag

Aðgerðarsinnar hafa kallað eftir því að fólk virði ekki bann við mótmælum í dag. Fólk er hvatt til að mótmæla nýju lögunum á götum Hong Kong borgar. Nýju lögin gætu hins vegar orðið til þess að letja fólk til mótmæla, því þar er kveðið á um bann við andófi gegn kínversku stjórninni. Þeir sem berjast fyrir aðskilnaði Hong Kong og Kína geta átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi. Eins banna lögin niðurrifsstarfsemi og samstarf við erlend ríki um að grafa undan þjóðaröryggi.

Lögin hafa ekki aðeins verið gagnrýnd af lýðræðissinnum í Hong Kong. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að lögin sýni og sanni að Kínverjar deili ekki lífsgildum bandalagsþjóðanna um frelsi, lýðræði og virðingu fyrir lögum. Lögin eru talin grafa undan réttarfarslegu sjálfstæði héraðsins og réttindum íbúa.