Fjórir í fangaklefa

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Fjórir gistu fangaklefa Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Farþegi og ökumaður voru handteknir eftir að tilkynnt var um ölvunarakstur í Norðlingaholti á tólfta tímanum í gærkvöld. Að sögn lögreglu er farþeginn grunaður um líkamsárás og fengu bæði hann og ökumaðurinn að dúsa í fangaklefa. Á svipuðum slóðum sló maður annan í andlitið í nótt og braut tvær tennur. Árásarmaðurinn uppskar næturgistingu hjá lögreglunni.

Einn til viðbótar fékk að gista í fangaklefa. Sá var upphaflega fluttur á bráðadeild Landspítalans eftir að lögregla hafði afskipti af honum ofurölvi í Aðalstræti í Reykjavík upp úr klukkan ellefu. Um klukkan þrjú var aftur kallað á lögreglu vegna hegðunar mannsins á bráðadeild. Hann var því handtekinn og stungið í fangaklefa í stað sjúkrarúms. 

Upp úr miðnætti hafði lögregla afskipti af konu og karli vegna gruns um að þau væru að selja eiturlyf á göngustíg í Kópavogi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi