United sækir fast að Meistaradeildarsæti

epa08518839 Manchester United's Bruno Fernandes celebrates after scoring the 2-0 lead during the English Premier League match between Brighton & Hove Albion and Manchester United in Brighton, Britain, 30 June 2020.  EPA-EFE/Mike Hewitt/NMC/Pool EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

United sækir fast að Meistaradeildarsæti

30.06.2020 - 21:10
Manchester United vann 3-0 útisigur á Brighton & Hove Albion í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Liðið er nú tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Fyrir leikinn var United í sjötta sæti með 49 stig, þremur stigum frá Úlfunum sem voru sæti ofar en höfðu leikið einum leik meira. Í fjórða sætinu, því neðsta sem veitir keppnisrétt í Meistaradeildinni, sat svo Chelsea með 54 stig.

Rauðu djöflanna beið heimsókn til Brighton á suðurströndina en Brighton vann sterkan 2-1 sigur á Arsenal á heimavelli sínum fyrir tíu dögum síðan. United-menn virtust hins vegar ákveðnir í að forðast sömu örlög og þeir rauðklæddu frá Lundúnum þar sem þeir réðu lögum og lofum allt frá upphafsflautinu í kvöld.

Ungstirnið Mason Greenwood kom United á bragðið eftir rúmlega stundarfjórðungsleik og Portúgalinn Bruno Fernandes tvöfaldaði forystuna með öðru marki liðsins eftir stoðsendingu Paul Pogba eftir hálftímaleik.

2-0 stóð í leikhléi en Fernandes skoraði sitt annað mark og þriðja mark Manchester-liðsins eftir stoðsendingu Greenwood snemma í síðari hálfleik í kjölfar fallegrar sóknar liðsins. Þar við sat og United vann leikinn 3-0.

Manchester United er því í fimmta sæti deildarinnar með 52 stig, líkt og Wolves í sjötta sætinu, aðeins tveimur stigum frá Chelsea sem er í fjórða sæti en á leik inni. Brighton er aftur á móti með 33 stig í 15. sæti, sex stigum frá fallsæti.