Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hörð barátta um formannssætið í dag

30.06.2020 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Búast má við harðri baráttu um formanns- og stjórnarsæti á aðalfundi SÁÁ kl. 17 í dag á Hilton hóteli í Reykjavík. Formannskjör verður að fundi loknum. Þórarinn Tyrfingsson, sem var áður yfirlæknir á Vogi í þrjátíu og þrjú ár, og Einar Hermannsson, sem setið hefur í stjórn SÁÁ í fjögur ár, sækjast eftir formannssætinu.

Kjörinn formaður er jafnframt formaður aðalstjórnar. Þá skal einnig kjósa varaformann, sem verður jafnframt varaformaður SÁÁ. Arnþór Jónsson, sitjandi formaður SÁÁ, sækist ekki eftir endurkjöri og vildi ekki tjá sig um deilurnar undanfarið við fréttastofu.

Sundrung í starfi SÁÁ

Mikil óánægja hefur verið innan samtakanna síðustu mánuði eftir að átta starfsmönnum var sagt upp í sparnaðarskyni, án samráðs við Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni.

Þórarinn sagðist í Morgunútvarpi Rásar 2 fyrir viku vilja beita sér fyrir því að stjórnin fari ótvírætt með ákvörðunarvald samtakanna. Hann segir starfsmenn hafa gert uppreisn gegn stjórninni og að þeir vilji ekki fara að lögum samtakanna. 

Þá sagði Einar, einnig í viðtali í Morgunútvarpinu, að framkvæmdastjórn SÁÁ væri óvirk. Hann hefur lýst yfir stuðningi við þá 57 starfsmenn sem vilja ekki Þórarin aftur til starfa hjá SÁÁ. Þeir skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis að vandi félagsins snúist um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem ekki geti sleppt tökum á gömlum tímum. Hjá SÁÁ starfa rétt rúmlega hundrað manns, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn veltu fyrir sér lögmæti nýfélagaskráningar

Allir félagsmenn SÁÁ geta tekið þátt í kosningu. Sextán manns eru kosnir inn í aðalstjórn, sem skipuð er 48 manns, auk sjö varamanna þeirra. Stjórnin tekur síðan ákvörðun um framkvæmdastjórn og kýs sér formann. 

Heitar umræður fóru fram í Facebook-hópnum Vinir SÁÁ í gær þar sem vangaveltur voru um lögmæti nýskráninga í félagið. Einhverjir héldu því fram að verið væri að skrá nýja félaga eftir að lokað hefði verið fyrir nýskráningu.

SÁÁ sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í kjölfarið: