Einar er nýr formaður SÁÁ

30.06.2020 - 22:37
Innlent · SÁÁ
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Hermannsson
Einar Hermannsson er nýr formaður SÁÁ. Einar sóttist eftir formennsku samtakanna auk Þórarins Tyrfingssonar. Sitjandi formaður SÁÁ er Arnþór Jónsson en hann sóttist ekki eftir áframhaldandi formennsku.

Í stjórn SÁÁ sitja 48 einstaklingar. 16 af þeim voru kjörnir í kvöld en þeir eru allir stuðningsmenn Einars. Eftir að aðalfundi lauk var haldinn aðalstjórnarfundur þar sem kosið var um nýjan formann. 41 af meðlimum stjórnarinnar mættu á fundinn og greiddu 32 þeirra atkvæði með Einari. 

Einar segir í samtali við fréttastofu að hann sé afar ánægður með niðurstöðurnar. Hann segir jafnframt að það hafi komið sér á óvart hve afgerandi þær voru. 

Átök hafa verið innan SÁÁ og segir Einar að niðurstöðurnar bendi til þess að fólk vilji breytingar. Aðspurður hvort hann telji sig geta fært ró yfir samtökin segir Einar að hann finni fyrir góðum stuðningi. „Ég hef allt með mér til þess að gera það ásamt því góða fólki sem er með mér,“ segir hann og bætir við að hann taki við starfinu fullur auðmýktar og eftirvæntingar. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi