Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er kannski ekki besta landkynningin“

Mynd: Netflix / Netflix

„Þetta er kannski ekki besta landkynningin“

29.06.2020 - 11:05

Höfundar

Stjórnarmeðlimir FÁSES segjast hafa húmor fyrir því hvernig Íslendingar eru sýndir í Eurovision-kvikmynd Wills Ferrells, sem stórhuga en smáborgaralegir molbúar með takmarkaðan tónlistarsmekk. Þau gefa myndinni þrjár til fjórar stjörnur.

Um helgina var kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, eftir spéfuglinn Will Ferrell, loksins frumsýnd á streymisveitunni Netflix. Margir hafa beðið myndarinnar með mikilli eftirvæntingu, ekki síst þeir sem voru slegnir yfir því að Eurovision-keppni ársins hefði verið aflýst og fannst vanta Eurovision í líf sitt þetta árið. Í myndinni er fjallað um íslenska keppendur í Eurovision og það er Ferrell sjálfur sem fer með aðalhlutverk ásamt stórleikkonunni Rachel McAdams. Tökur fóru að miku leyti fram á Húsavík.

Dómarnir hafa verið nokkuð blendnir og hafa einhverjir erlendir miðlar haft orð á því að ómaklega sé vegið að Íslendingum í myndinni sem séu hafðir að háði og spotti. Ísak Pálmason og Steinunn Björk Bragadóttir sem eru í stjórn FÁSES, félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, kíktu í Morgunútvarpið á Rás 2.

„Ég tek þessu gríni ekki persónulega nærri mér og mér finnst eiginlega að aðrar þjóðir komi verr út úr myndinni,“ segir Ísak. „Þetta er kannski ekki besta landkynningin en mér finnst skemmtilegt hvernig við erum sýnd í þessari mynd sem smá molbúar.“ Steinunn tekur undir. Hún hafi skemmt sér stórvel yfir myndinni og hlegið mikið af gríni á kostnað Íslendinga sem henni fannst hitta nokkuð vel í mark. „Mér finnst þetta mjög fyndið og sýna hvernig við Íslendingar erum upptekin af því að sýnast meira kúl en við erum. Svo erum við upp til hópa bara í lopapeysu og viljum láta spila Nínu á barnum því það kemur ekkert annað til greina,“ segir hún. 

Lögin úr myndinni hljómi eins og þau gætu hæglega verið framlag frá Íslandi en þau hafa verið í mikilli spilun á streymisveitum síðan myndin kom út. Nú eru Eurovision-aðdáendur ekki menn með mönnum nema þeir þekki hvað vísað er í þegar hrópað er Ja Ja Ding Dong en það er titill lags úr myndinni sem dúóið flytur á bar fyrir meinta samlanda sína. Ísak segir að ákveðnar samsæriskenningar séu farnar í gang um að lögin hefðu verið valin úr hópi innsendra laga í norrænum undankeppnum síðustu ár. Steinunn hefur sömu tilfinningu. „Það eru nokkur lög sem gætu alveg hafa verið send í Melodie festivalen í Svíþjóð en ekki komist áfram. Mér finnst lögin reyndar meira sænskuskotin en íslensk en eins og Double trouble, lagið sem á að keppa fyrir Ísland í myndinni, það gæti alveg verið íslenskt.“

Heilt yfir segja þau aðdáendur ánægða með myndina en sumir erlendir aðdáendur hafa sett sig í samband við FÁSES-liða og lýst yfir vanþóknun á grófu gríni. „Það fer meira fyrir brjóstið á þeim en okkur hvernig við komum út úr þessu,“ segir Ísak glettinn. „Þau fatta ekki að við höfum húmor fyrir okkur sjálfum og hlæjum bara.“

Þau segja myndina draga upp merkilega raunsanna mynd af keppninni þó mikið sé ýkt og fært í stílinn. „Þetta sýndi glamúrinn og það sem á að vera í keppninni sjálfri er tekið upp í keppninni í Tel Aviv í fyrra svo þeir láta þetta líta út fyrir að vera raunverulegt. Á heildina litið finnst mér þeim hafa tekist að sýna hvernig Eurovision er í raun,“ segir Steinunn. Ísak segir að margt af því sem snúi að keppendunum sjálfum sé úr takti við raunveruleikann. „Eins og undirbúningurinn fyrir atriðin. Þegar þau fara á svið er þeim bara réttur míkrófónn þegar í raun eru allir mættir á svæðið tveimur vikum fyrir úrsltin til að æfa. Að því leyti var þetta kannski ekki alveg samkvæmt raunveruleikanum en þetta er bíó,“ segir hann. „Já, og góð saga á aldrei að gjalda sannleikans,“ samsinnir Steinunn. 

Aðspurð um stjörnugjöf segist Steinunn sem Eurovision aðdáandi gefa myndinni þrjár og hálfa stjörnu en sem almennur áhorfandi gefur hún henni þrjár. Ísak býður enn betur. „Ég segi fjórar stjörnur,“ segir hann ákveðinn að lokum. 

Rætt var við Ísak og Steinunni, sem eru í stjórn FÁSES, í Morgunútvarpinu á Rás 2

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Listaritstjóri BBC móðgaður fyrir hönd Íslendinga

Kvikmyndir

Heimsfrumsýning breyttist í heimapartý

Kvikmyndir

„Rosalega gaman að vinna með Rachel McAdams“