Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Múlaþing vinsælasta nafnið

28.06.2020 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Þriðjungur kjósenda í nafnakönnun fyrir sameinað sveitarfélag á Austfjörðum vill að nafnið Múlaþing verði fyrir valinu. Drekabyggð kom næst og Austurþing í þriðja sæti. Þessi nöfn nutu áberandi mestra vinsælda. Múlaþinghá, Múlabyggð og Austurþinghá ráku lestina.

Nafnakönnunin fór fram í gær samhliða forsetakosningum. Talið var í könnuninni í dag. Til stendur að velja nafn á sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Nafnakönnunin er ráðgefandi en ekki bindandi.

Kjósendur máttu velja tvö nöfn ef þeir auðkenndu fyrsta og annað val sitt. Þegar samanlögð atkvæði eru talin saman var niðurstaðan sú sama og í fyrra valinu. Múlaþing, Drekabyggð og Austurþing voru vinsælust.

Ef aðeins er litið til fyrsta vals völdu 33 prósent Múlaþing, 28 prósent Drekabyggð og 18 prósent Austurþing. Átta prósent völdu Múlaþinghá, Sjö prósent Múlabyggð og tvö prósent Austurþinghá.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV