Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Íslendingar eru svo miklir reddarar“

Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, er sáttur við hvernig íslensk yfirvöld brugðist við vanda þeirra kjósenda sem urðu að fara í sóttkví vegna mögulegs hópsmits. Hann hafði boðað fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á mánudag vegna málsins.

 

Greint var frá því á föstudag að þessi hópur mundi ekki geta kosið í forsetakosningunum og hafði Jón Þór gagnrýnt að fólk gæti ekki nýtt kosningarétt sinn.

Síðdegis í gær var svo komið upp aðstöðu með skömmum fyrirvara á bílastæði Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu í Hlíðasmára í Kópavogi. Þar voru sett upp skilrúm og gat fólk svo ekið eitt á bíl sínum inn í tjaldgang og gert þar grein fyrir atkvæði sínu í gegnum lokaða bílrúðu. Starfsmaður stimplaði þar kjörseðil og sýndi kjósanda til staðfestingar, áður en atkvæðið var sett í kjörkassa.

„Íslendingar eru svo miklir reddarar,“ segir Jón Þór í samtali við fréttastofu. Það sé frábært að fundin hafi verið lausn sem hafi gert fólki kleift að kjósa með aðstoð líkt og hreyfihömluðum bjóðist.

„Ég er búinn að senda póst á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvort það sé nokkuð tilefni tiil að funda á mánudag í ljósi þess að hægt var að bregðast við,“ segir Jón Þór og bætir við að vissulega þurfi að ræða þessi mál. Pressan að funda strax á morgun sé hins vegar ekki lengur til staðar.

Alls kusu 89 einstaklingar í þessari sérstöku kjördeild, sem er tæpur þriðjungur þess hóps sem nú er í sóttkví. „Það er fólk sem annars hefði ekki geta kosið. Þetta er líka spurning um prinsippið,“ segir Jón Þór.  „Yfirvöld brugðust við þar sem því var viðkomið og lögðu sig í líma við að laga ástandið svo lýðræði virkaði og sú viðleitni var frábær.“

Engu að síður þurfi að skoða hvort ekki verði hægt að koma upp sambærilegri aðstöðu annars staðar á landinu, reynist þess þörf í komandi kosningum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun því senda póst á sýslumenn og spyrja hvort önnur kjördæmi geti ekki tekið upp sama fyrirkomulag.

„Það verður að vera hægt að kjósa alls staðar á landinu því fólki má ekki vera mismunað eftir búsetu.“