Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Um þrjú hundruð í sóttkví

26.06.2020 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Um það bil þrjú hundruð eru nú í sóttkví hérlendis. Tvö COVID-19 tilfelli hafa verið staðfest innanlands og sóttvarnayfirvöld meðhöndla smitin sem hugsanlega hópsýkingu.  

Sóttvarnayfirvöld mælast til þess að allir sem eru í sóttkví verði skimaðir sem fyrst til þess að stöðva hópsýkingu. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að unnið sé að því að skima fólkið á heilsugæslum víða um höfuðborgarsvæðið. Sumir fari í sýnatöku í dag og aðrir á næstu dögum. 

„Þetta er ansi mikil vinna og stór hópur sem stöðvarnar þurfa að sinna. Mér sýnist þetta ganga vel. Stöðvarnar eru að bregðast vel við,“ segir Sigríður. Skimanir fari fram í bílum fyrir utan heilsugæslustöðvarnar.

Hún segir að neikvæð sýni aflétti ekki sóttkví. Sýnatakan sé fyrst og fremst gerð til að smitrakningateymið geti strax rakið smitin.

Niðurstöður úr fyrstu sýnatökunum ættu að liggja fyrir seint í dag eða í fyrramálið. Sigríður segir að smitsjúkdómalæknar Landspítalans og COVID-teymið hringi strax í þá sem fá jákvæða niðurstöðu en heilsugæslustöðvarnar upplýsi um neikvæð sýni á Heilsuveru.is.