Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mestum samdrætti til 2021 spáð á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Efnahagshorfur í heiminum eru enn verri en áður var gert ráð fyrir samkvæmt uppfærðri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í júnískýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahagshorfur aðildarríkja er Íslandi spáð meiri efnahagslegum samdrætti fram til loka næsta árs heldur en nokkru öðru OECD-ríki.   

Horfur hérlendis verstar í langtímaspá 

OECD gefur út tvær hagspár, önnur gerir ráð fyrir einni bylgju faraldursins en hin gerir ráð fyrir að faraldurinn taki sig upp að nýju. Ísland er í fimmta eða áttunda sæti yfir þau OECD-ríki sem verða fyrir mesta efnahagsskellinum á yfirstandandi ári, eftir því hvort gert er ráð fyrir einni eða tveimur bylgjum COVID-19. Þegar horft er yfir tímabilið frá síðasta ársfjórðungi 2019 til síðasta ársfjórðungs 2021, kemur Ísland hins vegar verr út en nokkurt annað OECD-ríki, óháð því hvort gert er ráð fyrir að faraldurinn taki sig upp að nýju eða ekki.   
 
Gert er ráð fyrir 5,7 prósenta samdrætti á tímabilinu og 9,1 prósenta samdrætti ef faraldurinn lætur aftur á sér kræla. Til samanburðar er Danmörku spáð 2,2 samdrætti og 5,9 prósenta ef önnur bylgja skellur á, og í Svíþjóð gerir OECD ráð fyrir 4,1 prósenta samdrætti og 5,7 prósenta ef faraldurinn tekur sig upp á ný.  

Atvinnuleysi meira víða annars staðar

Atvinnuleysið verður þó ekki mest á Íslandi að mati OECD. Gert er ráð fyrir 7,4 prósenta atvinnuleysi á þessu ári og 6 prósentum á því næsta, án annarrar bylgju. Hér að neðan má sjá til samanburðar atvinnuleysisspá Íslands og nokkurra annarra landa, þar sem ekki er gert ráð fyrir annarri bylgju.

Mynd með færslu
 Mynd:

Ferðaþjónustan verði lengi að ná sér á strik 

Í skýrslunni kemur fram að íslenska hagkerfið hafi tekið djúpa dýfu strax í upphafi þegar ferðaþjónustan lagðist niður eftir að settar voru á ferðatakmarkanir og útgöngubönn í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Vegna hlutfallslegs umfangs ferðaþjónustunnar séu áhrifin á hagkerfið sláandi. OECD varar við því að ferðaþjónustan gæti orðið lengi að ná sér á strik. Útflutningur á sjávarafurðum og áli hafi þó hjálpað til við að halda hagkerfinu á floti.

OECD mælir með opinberri fjárfestingu og bættu samkeppnisumhverfi

Í ljósi þess vanda sem ferðaþjónustan horfir fram á hvetur stofnunin til þess að íslensk stjórnvöld leiti leiða til að auka fjölbreytileika atvinnulífs og útflutningsstoða. Styrkja þurfi regluverk og bæta samkeppnisumhverfi fyrirtækja til að hvetja til frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar. Með fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun geti stjórnvöld stuðlað að aukinni einkafjárfestingu og þannig að langtímahagvexti. Þá eru stjórnvöld hvött til að styðja heimilin og bjóða upp á lausnir á vinnumarkaði til að tryggja að aðgerðirnar nái til sem flestra.

Efnahagshorfur í heiminum versna 

Í fyrradag birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) uppfærða hagspá, sem er heldur dekkri en sú sem gefin var út í apríl síðastliðnum. Þar er gert ráð fyrir 4,9 prósenta samdrætti í heiminum árið 2020, en spáin er 1,9 prósentustigum verri en síðasta spá. Átta prósenta samdrætti er spáð í þróuðustu ríkjunum.  
 
Í aprílspánni kom fram að samdráttur ársins yrði sá mesti síðan í kreppunni miklu árið 1929. Gita Gopinath, aðalhagfræðingur AGS, hefur sagt að skuldastaða ríkja muni ná meiri hæðum en nokkru sinni fyrr. Þannig verði opinberar skuldir hærri en þær voru eftir seinni heimsstyrjöld.  

Verri áhrif en búist var við

Í nýju spánni kemur fram að heimsfaraldurinn hafi haft verri efnahagslegar afleiðingar á fyrri hluta ársins en gert var ráð fyrir. Sökum samkomubanna, nálægðartakmarkana og lokana hafi neysla og þjónusta dregist mun meira saman en gengur og gerist í efnahagskreppum.  
 
Þrátt fyrir að mörgum ríkjum hafi tekist að stemma stigu við atvinnuleysi með skammtímalausnum á vinnumarkaði hafi vinnustundum fækkað því sem nemur um það bil 130 milljón störfum á fyrsta fjórðungi ársins og 300 milljón störfum á öðrum fjórðungi ársins.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV