Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Húsmóðir úr Vestmannaeyjum mætti sameiningartákni

Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm - Vigdís Forseti
Á laugardaginn ganga Íslendingar að kjörborðinu og velja milli Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Guðmundar Franklín Jónssonar viðskipta- og hagfræðings.

Þrisvar áður hefur sitj­andi for­seti þurft að heyja kosn­inga­bar­áttu, árin 1988, 2004 og 2012. Forseti hefur aldrei áður fengið mótframboð eftir eitt kjörtímabil. Þó er ekki að sjá að nú þyki til­töku­mál að sitj­andi for­seti sé skor­aður á hólm. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið.

Þótti dónaskapur að bjóða sig fram

Í dag 26. júní eru 32 ár liðin síðan kosið var milli Vigdísar Finnbogadóttur forseta og Sigrúnar Þorsteinsdóttur. Það var í fyrsta sinn sem mótframboð kom fram gegn sitjandi forseta.

Við­brögðin voru yfir­leitt þau að það væri dóna­skap­ur, hneyksli og hreinlega fáránlegt að skora far­sælan for­seta á hólm, auk þess sem kostn­aður við „von­lausar kosn­ing­ar“ þótti allt of mik­ill.

Oft var Sigrún einfaldlega titluð „húsmóðir úr Vestmanneyjum” í fjölmiðlaumfjöllun um hana.

Vildi efla lýðræðið

Sig­rún Þorsteinsdóttir hefur sjálf sagt að með framboði sínu hafi hún viljað efla lýð­ræðið í land­inu. Hennar keppikefli hefði verið að virkja for­seta­emb­ættið og hún vildi fjölga þjóð­ar­at­kvæða­greiðsl­um. Hún kvaðst til að mynda aldrei samþykkja lög sem brytu mannréttindi.

Vig­dís for­seti hafði sig lítt í frammi í kosn­inga­bar­átt­unni. Hún sagði þjóðina vita hvað hún stæði fyrir. Skoðanakannanir sýndu strax lítið fylgi Sig­rúnar og var hún iðulega hvött til að draga framboð sitt til baka.

Hún ferðaðist um landið og hitti fólk á kaffistofum vinnustaða þar sem hún kynnti hugmyndir sínar um forsetaembættið. Ekki er annað að sjá en henni hafi verið vel tekið þar.

Andstaða við framboðið

Nokkur fjöldi greina og leiðara var skrifaður í dagblöð landsins þar sem hamrað var á ósvífni Sigrúnr með framboðinu, um kostnaðinn sem af því hlyt­ist auk þess sem fyrir kom að hún var hædd og spottuð fyrir uppátækið.

Þó átti Sigrún hóp stuðningsmanna sem sögðu meðal annars að lýðræðið ætti ekki að meta til fjár. Sömuleiðis kváðu þau viðbrögð við framboðinu vera á tilfinningalegum nótum og órökrétt auk þess sem Vigdís var hvött til að mæta Sigrúnu í kappræðum svo hún gæti betur komið skilaboðum sínum á framfæri.

Niðurstaða kosninganna

Vigdís Finnbogadóttir vann afgerandi sigur í kosningunum 26. júní 1988 með tæp 93% greiddra atkvæða. Niðurstaðan var meðal annars túlkuð sem stað­fest­ing á stöðu hennar sem sam­ein­ing­ar­tákn.

Kjör­sókn var heldur dræm á þess tíma mælikvarða eða ríf­lega 72 af hundraði. Sig­rún Þorsteinsdóttir sem fékk 5,3% atkvæða mat nið­ur­stöð­una þannig að þeir sem heima sátu hafi viljað virk­ari for­seta.