Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forsetakosningar í Póllandi á sunnudag

26.06.2020 - 04:31
Polish President Andrzej Duda makes a statement in Warsaw, Poland, Monday, July 24, 2017. Duda announced that he will veto two contentious bills widely seen as assaults on the independence of the judicial system. (AP Photo/Alik Keplicz)
Andrzej Duda, forseti Póllands. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Framtíð hægri stjórnarinnar í Póllandi gæti verið ógnað vegna úrslita forsetakosninganna þar í landi á sunnudag. Skoðanakannanir sýna þó að öruggt megi teljast að núverandi forseti Andrzej Duda verði efstur í kjörinu en ólíklegt þykir að hann nái þeim helmingi atkvæða sem þarf til sigurs.

Forsetinn heimsótti Donald Trump Bandaríkjaforseta í vikunni og fór vel á með þeim. Það var fyrsta opinbera heimsóknin til Washington frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á.

Bandaríkjaforseti hvatti kollega sinn til dáða og sagði hann standa sig frábærlega í starfi. Ljóst er að Trump álítur Duda mikilvægan bandamann sinn en leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hafa verið mjög gagnrýnir á störf hans.

Breytingar forsetans og flokks hans, Laga og réttlætis, á réttarkerfi Póllands hafa sætt ámæli auk þess sem lýðræði þykir eiga undir högg að sækja. Duda hefur sömuleiðis fundið að við Evrópusambandið sem hann telur Pólverja lítið gagn hafa af.

Duda komst til valda árið 2015, hann er einarður andstæðingur fóstureyðinga, glasarfrjóvgana og hjónabanda samkynhneigðra. Á hinn bóginn lofar hann að halda til streitu stefnu flokks síns varðandi greiðslu margvíslegra bóta til almennings. Það hefur skapað honum vinsældir.

Nokkrir sækjast eftir embætti forseta Póllands af öllu pólítíska litrófinu en helsti keppinautur Duda forseta er talinn vera Rafal Trzaskowski borgarstjóri Varsjár. Líklegt þykir að síðari umferð forsetakosninganna verði einvígi þeirra tveggja.