Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjöldi vígamanna handtekinn í Írak

26.06.2020 - 01:07
Mynd með færslu
Þótt Íraksher hafi hrakið Íslamska ríkið frá öllum helstu vígjum þess í Írak og lýst yfir fullnaðarsigri í stríðinu við samtökin leynast vopnaðir hópar úr þessum illræmdu samtökum enn í landinu og öryggisgæsla er enn ströng í Bagdad Mynd: EPA
Öryggissveitir handtóku í dag á annan tug vígamanna hliðholla Íran í suðurhluta Bagdad. Hin handteknu eru ásökuð um að hafa gert fjölda eldflaugaárása á bandarísk mannvirki í Írak.

Við handtökuna voru þrjár eldflaugaskotvörpur gerðar upptækar.

Frá því í október á síðasta ári hafa tugir árása verið gerðar á herstöðvar Bandaríkjamanna, sendiráð þeirra í Bagdad og aðsetur bandarískra olíufélaga. Írakar, Bretar og Bandaríkjamenn hafa fallið í árásunum.

Grunur leikur á að um sé að ræða liðsmenn Kataeb Hezbollah sem einnig eru þekkt sem deild 45 í hernaðarsamtökunum Hashed al-Shaabi. Þau hafa náin tengsl við Íran.

Bandaríkjamenn hafa um hríð ásakað samtökin um áðurnefndar árásir og hafa tvisvar svarað þeim í sömu mynt. Í bæði skiptin eftir að bandarískir hermenn höfðu fallið í eldflaugaárásum.

Eftir að Mustafa al-Kadhemi tók við sem forsætisráðherra Írak hafa samskiptin við Bandaríkjamenn mildast mjög. Fyrr í júní fóru fram viðræður um áframhaldandi samskipti ríkjanna.

Á sama tíma mögnuðust árásir á bandarísk skotmörk í Írak. Við það kólnuðu samskipti Bandaríkjanna og Íran eftir tímabil nokkurrar þíðu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV