Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Vonandi breytingin sem við viljum og þurfum“

Mynd með færslu
Annie Mist og Katrín Tanja Mynd: Síða Crossfit Games - RÚV

„Vonandi breytingin sem við viljum og þurfum“

25.06.2020 - 10:14
Eigendaskipti vörumerkisins Crossfit sem gengu í gegn í gær breyta líklega heilmiklu fyrir framtíð Crossfit en fjölmargir keppendur ætluðu að hætta í íþróttinni án breytinga. Katrín Tanja Davíðsdóttir segist vongóð um framhaldið með nýja eigandann.

Greg Glassmann hefur selt Crossfit-samtökin vegna mikils þrýstings sem hann upplifði í kjölfar rasískra ummæla hans á Twitter. Mikil reiði braust út í Crossfit-heiminum vegna ummælanna og fjölmargar Crossfit-stöðvar neituðu að starfa áfram undir nafni samtakanna og margar af helstu Crossfit-stjörnum heims kváðust ekki myndu halda áfram í íþróttinni nema róttækar breytingar yrðu gerðar á stjórn samtakanna. Glassmann sagði af sér sem framkvæmdastjóri samtakanna fyrr í mánuðinum en mörgum þóttu þær breytingar ekki nægilega miklar þar sem hann var áfram eigandi þeirra einn.

Sjá einnig: Katrín og Annie Mist fordæma ummæli CrossFit-stjóra

Nú hefur Glassman selt Eric Roza fyrirtækið. Roza tekur jafnframt við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann hefur verið hluti af Crossfit-samfélaginu í áratug og er stofnandi Crossfit Sanitas-stöðvarinnar í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum. Roza sendi frá sér yfirlýsingu um kaupin í gær og þar segir hann meðal annars að kynþáttamisrétti og kynjamisrétti séu viðbjóðsleg og fái ekki að viðgangast innan Crossfit-samtakanna. Öllum sé velkomið að taka þátt og hann ætli að vinna hörðum höndum að því að byggja upp traust þeirra sem hafa misst trú á Crossfit.

Sjá einnig: „Fólk er reitt og sárt“

Katrín Tanja Davíðsdóttir, tvöfaldur heimsmeistari Crossfit, var ein þeirra sem sagðist ætla að hætta í Crossfit ef engar breytingar yrðu og ætlaði ekki að taka þátt í Heimsleikunum í ár. Katrín birti hins vegar mynd á Instagram í gær af Roza þar sem hún segist vongóð um komandi tíma með nýjan eiganda og framkvæmdastjóra. Hann sé vonandi breytingin sem Crossfit-samfélagið vilji og þurfi. Óánægja vegna Glassmann er sögð ná lengra aftur en rasísk ummæli hans en það hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Með tilkomu Roza getur Crossfit-samfélagið mögulega séð fram á nýja og bjartari tíma.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Katrín Tanja: „Toppurinn er eitraður“

Íþróttir

Katrín Tanja hætt í Crossfit

Íþróttir

„Ekkert sem kemur í veg fyrir að hann birtist aftur“

Íþróttir

„Fólk er reitt og sárt“