Ræddu jakkaleysi Björns Levís á Alþingi í hálftíma

25.06.2020 - 22:37
Mynd: Alþingi / Alþingi
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gerði athugasemd við klæðaburð Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem var ekki í jakka í þingsalnum í kvöld. Steingrímur benti á að fjölmargar stéttir í landinu klæddu sig í takt við sitt starf. Hann hafi sjálfur þurft að kaupa sér fínni föt þegar hann byrjaði á þingi.

„Þeim sem bjóða sig fram til Alþingis mætti vera það ljóst að það  hefur líka verið hefð hér að fólk uppfylli ákveðnar klæðaburðarskyldur,“ sagði Steingrímur í lok umræðunnar, um hálftíma eftir að hún hófst. Umræðan stóð frá um hálf tíu í kvöld.

„Í huga forseta snýst þetta um virðingu fyrir sjálfum sér, fyrir stofnuninni Alþingi og virðingu fyrir samstarfsfólkinu. Ef að það er þannig að klæðaburður veldur þingmönnum verulegum ama þá er spurningin hvort það er ekki svo útlátalítið fyrir þá þingmenn að vera snyrtilega klæddir að öðrum þingmönnum þyki það ekki stórlega miður.“

Vildi láta banna þingmenn úr salnum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, óskaði eftir því að forseti þingsins myndi biðja þingmenn um að klæða sig að fullu og að þeir sem ekki væru full klæddir yrðu bannaðir í þingsalnum.

„Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að það er ekki hægt að innræta mönnum sjálfsvirðingu. Og það er ekki hægt að gera neitt af því ef af menn hafa ekki virðingu fyrir sjálfum sér, en mér þykir það heldur ömurlegt þegar menn bera ekki virðingu fyrir elstu stofnun landsins og þeim hefðum og þeim reglum sem þar hafa gilt um ára bil,“ sagði Þorsteinn um fundarstjórn forseta í miðjum umræðum um Orkusjóð.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði það ekki vera virðingarleysi að vera í pontu án þess að vera í jakka. Hann sagði að greinilega væri kynslóðamunur á milli þingmanna og sagði að það væri tímasóun að ræða um klæðaburð þingmanna. „Ég vildi bara koma hingað upp og leiðrétta það að þetta væri virðingarleysi. Það er einfaldlega rangt,“ sagði Helgi Hrafn.

Umræðan um fundarstjórn forseta stóð í um hálfa klukkustund og hún fór fljótlega að snúast um hvernig þingmenn töluðu saman á þinginu. Fjöldi þingmanna kvaddi sér hljóðs.

Ekki þekktur stílisti

Einn þeirra var Brynjar Nielsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Sjálfur er ég nú ekki þekktur stílisti og ég get líka fullvissað ykkur um að þetta er ekki vitlausasta umræða sem hefur verið hér,“ sagði Brynjar Níelsson og uppskar hlátur í þingsalnum.

„Ég mótmæli þessari vitleysu“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fannst umræðan barnaleg. „Hugsið ykkur bara að hafa ekkert betra við tímann sinn að gera en að velta sér endalaust upp úr hvaða fötum fólk er í. Mikið hlýtur það að vera leiðinlegt líf að hafa ekki merkilegri hluti að segja í ræðustól Alþingis en að setja út á klæðaburð annarra þingmanna. Þá er málefnaþurrðin orðin ansi mikil þegar við þurfum að fara að gera athugasemdir við útlit hvors annars. Þetta eru svona unglingastælar. Ég mótmæli þessari vitleysu, herra forseti.“

„Þetta er náttúrlega bara yfirgengilega hallærislegt, herra forseti,“ sagði Þórhildur Sunna.

Steingrímur stóð þá upp áður en hann kynnti næsta ræðumann: „Forseti telur rétt að vekja athygli á því fyrir þá þingmenn sem ekki voru viðstaddir upphaf þessara orðaskipta þá var það forseti sjálfur sem gerði athugasemdir við klæðaburð Björns Leví Gunnarssonar og ég sé mér til mikillar ánægju að háttvirtur þingmaður hefur brugðist vel við og er nú klæddur eins og viðeigandi er hér í salnum,“ sagði Steingrímur.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi