Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stríðsloka minnst í Moskvu í dag

24.06.2020 - 04:10
epa08445202 Russian President Vladimir Putin attends a meeting with Russian Defence Minister Sergei Shoigu (not pictured) via teleconference call at Novo-Ogaryovo state residence outside Moscow, Russia, 26 May 2020. Russian President Vladimir Putin announced 24 June as the date for the Victory Parade. Earlier the traditional troops parade as part of  the Victory Day Parade which is annually held on 09 May, was cancelled due to Covid-19 epidemic in Russia.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK /KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Búist er við að mikið verði um dýrðir á Rauða torginu í Moskvu í dag. Þá hefst mikil minningarhátíð um að 75 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar sem Vladimir Pútín forseti Rússlands á veg og vanda að.

Kórónuveirufaraldurinn neyddi Rússa til að fresta hefðbundnum hátíðahöldum 9. maí. Pútín frestaði þeim uns aðeins vika er í að þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildar stjórnarskrárbreytingar ljúki.

Meðal annars er þar að finna einhvers konar „núllstillingu” á fjölda kjörtímabila sem forseti getur setið. Þar með gæti Pútín, sem verður 68 ára í október, opnast sá möguleiki að sitja sem forseti í tvö kjörtímabil til viðbótar.

Það þýðir að forsetatíð hans gæti náð allt til ársins 2036. Yfirstandandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024 en hann hefur ýmist verið forsætisráðherra eða forseti Rússlands síðan 1999.

Pútín hefur verið gagnrýndur fyrir að bíða ekki lengur með hátíðahöldin því að þrátt fyrir að smitum í landinu hafi fækkað og dregið hafi verið úr ferðatakmörkunum greinast þúsundir nýrra tilfella af COVID-19 dag hvern.

Fullyrt hefur verið að fyllsta öryggis verði gætt en enginn þátttakenda mun bera hlífðargrímur og í raun er enn bannað í Moskvu að safnast saman í stórum hópum.

Sýningin í Moskvu verður stórkostlegt sjónarspil þar sem um 13 þúsund hermenn frá þrettán löndum munu marsera, auk þess sem eldgömul og glæný hernaðartól verða til sýnis.

Til stóð að Xi Jinping leiðtogi Kína og Emmanuel Macron Frakklandsforseti yrðu viðstaddir hátíðahöldin en þeirra í stað munu til að mynda leiðtogar fyrrum Sovétlýðvelda og Serbíu standa við hlið Pútíns.

Bæði borgarstjóri Moskvu og talsmaður Kremlar hafa hvatt almenning til að halda sig heima og fylgjast fremur með hátíðinni í sjónvarpi.

Einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar Alexei Navalny hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir kostnaðinn við minningarhátíðina og jafnframt hvatt stuðningsfólk sitt til að sniðganga þjóðaratkvæðagreiðsluna.