Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samningurinn gildir þótt fleiri hafi sagt nei en já

Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Lefebvre
Félagsdómur hefur viðurkennt að samkomulag um breytingar á kjarasamningi milli Félags íslenskra náttúrufræðinga og íslenska ríkisins sé í gildi þrátt fyrir að fleiri félagsmenn hafi viljað fella samninginn en samþykkja hann. Dómurinn var kveðinn upp í gær.

Rafræn atkvæðagreiðsla fór fram um samninginn dagana 8. til 17. apríl síðastliðinn og stóð félagsmönnum til boða að haka við eftirfarandi möguleika:

  1. Já, ég samþykki
  2. Nei, ég samþykki ekki
  3. Skila auðu

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var að 265 félagsmenn samþykktu samninginn, 278 höfnuðu honum en 21 félagsmaður skilaði auðu. 

Félag íslenskra náttúrufræðinga lagði þann skilning í niðurstöðurnar að samningurinn hefði verið felldur því fleiri vildu fella hann en samþykkja. Túlkun ríkisins var hins vegar á þá leið að samningurinn hefði verið samþykktur því hlutfall þeirra sem vildu fella samninginn var undir fimmtíu prósent af öllum greiddum atkvæðum. Ágreiningurinn snerist því um hvort telja hafi átt auða seðla með.

Samningsaðila greindi meðal annars á um hvaða reglur gilda um talningu atkvæða í atkvæðagreiðslu sem þessari en lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru fáorð um álitamál af þessum toga. Íslenska ríkið taldi að hægt væri að beita lögum um stéttarfélög og vinnudeilur í málinu en þau lög gilda um kjarasamninga á almennum markaði. Í lögunum kemur fram að hafi kjarasamningur verið undirritaður, þá gildir hann frá undirskriftardegi nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meirihluta greiddra atkvæða. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga.

Félagsdómur tók undir með íslenska ríkinu og taldi ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur eiga við um atkvæðagreiðsluna. „Verður þeim ákvæðum því beitt með lögjöfnun um atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamninga opinberra starfsmanna,“ segir í dóminum. 

Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga, segir niðurstöðuna mikil vonbrigði. Hún furðar sig á því að ekki skuli hafa verið tekið tillit til þess að fleiri félagsmenn vildu fella samninginn en samþykkja hann. 

Félagsdómur hefur ekki áður tekið afstöðu til álitamáls af þessu tagi og mun dómurinn því hafa fordæmisgildi ef svipaðar deilur koma upp. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV