Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Norður-Kóreumenn snúa frá landamærunum

24.06.2020 - 04:49
In this undated photo distributed on Saturday, Sept. 16, 2017, by the North Korean government, North Korean leader Kim Jong Un, center, attends what was said to be the test launch of an intermediate range Hwasong-12 missile at an undisclosed location in North Korea. Independent journalists were not given access to cover the event depicted in this image distributed by the North Korean government. The content of this image is as provided and cannot be independently verified. (Korean Central News Agency/Korea News Service via AP)
 Mynd: AP
Norður-Kóreustjórn hefur ákveðið að fresta því að beita nágranna sína í suðri hernaði. Þetta var tilkynnt fyrr í kvöld.

Mjög stirt hefur verið á milli ríkjanna undanfarið, einkum vegna áróðursbæklinga sem sunnanmenn eru sagðir hafa sent norður yfir landamærin.

Í liðinni viku hótuðu Norður-Kóreumenn að senda herafla inn á hlutlausa svæðið sem skilur ríkin að og skutu sprengjum á landamærastöð nærri borginni Kaesong.

Fyrirskipanir um liðsafnað við landamærin komu frá Kim Yo-jong, systur leiðtogans Kim Jong-un.

Ákvörðunin um að draga úr ógnunum við nágranna sína er rakin til fundar sem Kim Jong-un hélt með herráði landsins.

Herlið Norður-Kóreu verður dregið til baka. Einnig var hafist handa við að taka niður hátalara sem notaðir voru til að þruma orðsendingum yfir landamærin.

Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu telja að um einhverskonar valdabaráttu milli systkinanna kunni að vera að ræða. Með tilskipun sinni nú hafi Kim Jong-un viljað sýna fram á að hann væri mildur leiðtogi meðan Kim Yo-jong væri óútreiknanlegt hörkutól.

Það gæti gagnast Kim Jong-un jafnt heima fyrir sem í friðarviðræðum í framtíðinni.