Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kápumynd Veldisprota Ottókars gæti selst dýrt

24.06.2020 - 07:16
Mynd með færslu
 Mynd: cc
Búist er við að kápumynd bókarinnar Veldissproti Ottókars konungs geti selst fyrir allt að 350 þúsund evrur eða jafnvirði 55 milljóna króna á uppboði í París á laugardag.

Bókin er sú áttunda í röðinni um ævintýri Tinna, blaðamannsins knáa. Tinna-sérfræðingar álíta að Hergé, höfundur bókanna, hafi teiknað bókina sem ádeilu á kanslara Þýskalands Adolf Hitler og innlimun Austurríkis í þriðja ríkið árið 1938.

Í bókinni standa Tinni og Tobbi frammi fyrir því að koma í veg fyrir valdarán í tilbúna Balkanríkinu Sýldavíu.

Veldissproti Ottókars birtist fyrst á prenti í tímaritinu Le Petit Vingtieme árin 1938 til 1939. Teikningin sýnir Tinna hrasa við að stíga út úr flugvél í Prag. Til að ná jafnvægi grípur hann um skegg nýfengins vinar síns innsiglisfræðingins Allsodda.

Teikningin er ein nokkurra sem seldar verða í uppboðshúsinu Artcurial í París. Önnur er úr litabók frá árinu 1966 og sýnir þá félaga Ástrík og Steinrík.

Búist er við að dýrasti munurinn á uppboðinu verði mynd eftir belgíska teiknarann Franquin af ímyndaða furðudýrinu Gormi sem iðulega var í för með Svali nokkrum og vini hans Val.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV