Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Einar segir fjármuni ekki vandamálið

24.06.2020 - 09:45
Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd
Einar Hermannsson, sem nú býður sig fram til formanns stjórnar SÁÁ, segir ágreining innan samtakanna ekki hafa neitt með eignir eða fjármuni félagsins að gera. Reksturinn sé svipaður og hann hafi verið undanfarin tíu ár þó að vissulega hafi kórónuverufaraldurinn sett strik í reikninginn.

Þórarinn Tyrfingsson, mótframbjóðandi Einars og fyrrverandi yfirlæknir á Vogi, sagði í gær rekstur Vogs hafa farið hallandi frá því að Valgerður Rúnarsdóttir tók við starfi forstjóra sjúkrahússins. „Það er augljóst að þetta snýst um fjármuni,“ sagði hann í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Rekstur SÁÁ er alltaf viðfangsefni hverju sinni og það er alltaf barátta um peninga. Það er að segja að við höfum ekki nóg af peningum til að sinna því sem við viljum sinna. Nei, reksturinn er bara svipaður og hann hefur verið undanfarin tíu ár,“ sagði Einar. „Auðvitað er reksturinn þungur, [...] að sjálfsögðu hafa lán hafa verið fryst,“ sagði hann um afleiðingar farsóttarinnar.

Hann sagðist ekki skilja að sumir væru ósammála stefnu Valgerðar Rúnarsdóttur í meðferðarstarfinu. Álit þeirra hafi jafnvel komið annars staðar frá, framkvæmdastjórnin væri óvirk. Farið væri með rógburð um lokanir deildar SÁÁ sem hræddi skjólstæðinga.

Þórarinn hafi unnið gott frumkvöðlastarf á árum áður fyrir SÁÁ með því að taka þátt í þörfum átökum en nú væri sá tími liðinn.

Einar sagðist fyrst og fremst vilja, sem formaður, skapa frið, traust og trúnað eftir linnulaus átök í samtökunum síðustu átján mánuði. Mikilvægt væri að gera langtímasamninga við Sjúkratrygginar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið.

Einar var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.