Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alvarlegir efnahagserfiðleikar í Suður-Afríku

24.06.2020 - 16:06
epa08418945 Commuters walk to and from taxis at the Bara Taxi Rank on day 46 of the national lockdown as a result of Covid-19 Coronavirus, Johannesburg, South Africa, 13 May 2020. One of the biggest in the country, the taxi rank, is vital for people to travel to and from work in the city. The country is at level 4 of the national lockdown in its 46 day after it was implemented on 30 April 2020.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Gert er ráð fyrir yfir sjö prósenta efnahagssamdrætti í Suður-Afríku á þessu ári. Atvinnuleysi fer vaxandi. Stjórnvöld segja að ástandið eigi enn eftir að versna.

Tito Mboweni fjármálaráðherra greindi suðurafríska þinginu frá því í dag að útlit væri fyrir sjö komma tveggja prósenta samdrátt á þessu ári vegna COVID-19 farsóttarinnar. Fara þyrfti hátt í níutíu ár aftur í tímann til að finna viðlíka efnahagsástand. Hann lagði jafnframt fram frumvarp til viðbótarfjárlaga til að bregðast við kreppunni.

Hagstofan í Pretoríu, StatsSA, tilkynnti í gær að atvinnuleysið hefði verið 30,1 prósent í Suður-Afríku á fyrsta ársfjórðungi, 0,1 prósentustigi meira en þrjá síðustu mánuði síðasta árs. Þetta er mun minni aukning en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir. 7,1 milljón var án vinnu á fjórðungnum. Starfsfólki fækkaði í öllum atvinnugreinum, til dæmis um fimmtíu þúsund í fjármálageiranum.

Cyril Ramaphosa forseti varaði af þessu tilefni við því að ástandið á vinnumarkaði ætti eftir að versna. Erfiðir tímar væru framundan. Áður en kórónuveiran tók að breiðast út í Suður-Afríku í mars var þar brostin á efnahagslægð. Viðskiptaráð landsins telur að atvinnuleysið geti farið í fimmtíu prósent vegna farsóttarinnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV