Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Álagsgreiðslur greiddar út um mánaðamótin

Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso / Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Álagsgreiðslur til starfsmanna Landspítalans sem voru í framlínunni í COVID-19 faraldrinum geta numið allt að 250 þúsund krónum. Allir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fá sömu upphæð, 95 þúsund krónur. Flestir heilbrigðisstarfsmenn fá greiðslur nú um mánaðamótin. Á sjúkrahúsinu á Akureyri verður greitt út 1. ágúst.

670 milljónir til Landspítalans

Í fjáraukalögum, sem Alþingi samþykkti í vor, er gert ráð fyrir að heilbrigðisstarfsmenn sem voru í framlínunni í faraldrinum fái sérstaka umbun fyrir störf sín. Til skiptanna er einn milljarður króna með launatengdum gjöldum. Stærstur hluti fer til Landspítalans eða um 670 milljónir króna. Til Sjúkrahússins á Akureyri fara 80 milljónir og sama upphæð til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 170 milljónir skiptast svo á milli annara heilbrigðisstofnana.

Allt að 250 þúsund

Landspítalinn hefur ákveðið að greiða starfsmönnum umbunina 1. júlí. Þar var ákveðið að allir starfsmenn fengju álagsgreiðslu að undanskildum forstjóra, aðstoðarmanni forstjóra, framkvæmdastjórum og forstöðumönnum. Vegna þess að ljóst er að álagið var mismikið var ákveðið að skipta greiðslunum í A- og B-greiðslur. Í A-hópunum eru þeir sem voru í nánustu snertingu við COVID-smitaða. Greiðslurnar geta verið allt að 250 þúsund krónur í þessum flokki. Aðrir starfsmenn eru í B-hópunum og geta greiðslur til þeirra orðið um 105 þúsund krónur. Endanleg upphæð fer eftir viðveru starfsmanna í mars og apríl.

95 þúsund til starfsmanna fyrir vestan

Á sjúkrahúsinu á Akureyri hefur verið ákveðið að fara sömu leið og Landspítalinn, að greiðslurnar verði misháar. Þar er enn verið að reikna út og stefnt að því að greiða umbunina 1. ágúst.

Á heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið hefur verið ákveðið að fara sömu leið, að allir starfsmenn fyrir utan forstjóra og æðstu stjórnendur fái sömu upphæð. Sumar stofnanir voru kannski ekki í mikilli snertingu við veiruna en álagið fólst í viðbragðsaðgerðum, að gjörbreyta verklagi á örskömmum tíma.
 
Heilbrigðisstofnun Austurlands er kannski dæmi um þetta. Þar eru rúmlega 230 stöðugildi og 11 starfsstöðvar. Stofnunin fær 14,4 milljónir til skiptanna og hver starfsmaður í fullu starfi fær tæpar 50 þúsund krónur.

21,6 milljónir koma í hlut Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til að greiða starfsmönnum álagsgreiðslur vegna COVID-19. Ýmsir starfsmenn stóðu í ströngu um tíma og upp kom hópsmit sem krafðist mikillar vinnu og nálægðar við smitaða einstaklinga. Starfsmenn eru rúmlega 200 talsins og í hlut hvers koma 95 þúsund krónur sem greiddar verða út 1. júlí. Greiðslurnar er í samræmi við starfshlutfall og óháðar launaflokki. Greiðslan er skattskyld og nær til þeirra sem voru við störf  frá 1. til 30. apríl.