Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kynnt í dag

23.06.2020 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Klimkin - Pixbay
Ríkisstjórnin ætlar að kynna uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í fjármálaráðuneytinu í dag. Kynningunni verður streymt beint á vefnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynna áætlunina.

Það hefur staðið til að uppfæra áætlunina síðan aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var kynnt árið 2018. Áætlanirnar gilda til ársins 2030, þegar Parísarsáttmálinn rennur út. Í áætluninni frá 2018 voru skilgreind markmið og aðgerðir í 34 liðum til þess að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Í dag verður uppfærð áætlun kynnt. Nýverið var greint frá drögum að skýrslu Capacent sem unnin var fyrir Loftslagsráð. Þar segir að það hái öllum aðgeðrum stjórnvalda, fyrirtækja og heimila í loftslagsmálum að ekki liggi fyrir skýr sýn um hvernig Ísland hyggist standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Á síðustu árum hefur losun gróðurhúsaloftegunda á Íslandi sem er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda minnkað lítið. Umhverfisstofnun kynnti loftslagsbókhald sitt í apríl síðastliðnum. Nýjustu tölur sem liggja fyrir eru fyrir árið 2018. Þá minnkaði losun gróðurhúsalofttegunda lítið frá fyrra ári. Losunin hefur haldist svipuð síðan 2009; Íslendingar losa rétt tæplega 3000 kílótonn koltvíoxíðsígilda á ári.

Þriðjungur þeirrar losunar sem er ábyrgð íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar ná til er frá vegasamgöngum.