Tóku COVID-sýni úr lögreglumönnum í þrígang

23.06.2020 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tekin hafa verið sýni í þrígang úr lögreglumönnum sem komu að handtöku Rúmena sem voru smitaðir af COVID-19. Sýni voru síðast tekin í gær, en ekkert þeirra reyndist jákvætt. Yfirlögregluþjónn segir að þessar endurteknu sýnatökur hafi verið gerðar í öryggisskyni.

Þrír lögreglumenn á Suðurlandi, sem komu að handtökunni, hafa greinst með COVID-19. Sýni voru fyrst tekin á mánudaginn í síðustu viku og þá kom í ljós að lögreglukona hefði smitast.  Sýni voru tekin aftur á fimmtudaginn og þá greindust tveir lögreglumenn til viðbótar.  Ákveðið var að taka sýni aftur í gær og niðurstaðan var að ekki hefði bæst við í hóp smitaðra.

 

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að sýnatakan hafi verið endurtekin oftar en einu sinni til að taka af allan vafa. „Þetta var ákveðið til að vera alveg viss,“ segir Sveinn. Spurður hvort ein sýnataka hefði ekki átt að duga segir hann að svo hefði hugsanlega átt að vera en ákveðið hefði verið að taka aftur sýni í öryggisskyni. „ Sem betur fer,“ segir Sveinn.

Hann segir heilsu þeirra þriggja lögreglumanna sem hafa greinst vera góða miðað við aðstæður.

Verða tekin sýni í fjórða skiptið? „Nei, ég á ekki von á því.“

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi