Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sektuð um 15 milljónir fyrir skattsvik í Airbnb-útleigu

23.06.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirskattanefnd hefur lagt nærri fimmtán milljóna króna sektir á konu vegna útleigu Airbnb íbúða án þess að greiða skatt af starfseminni. Konan verður að greiða íslenskra ríkinu ellefu milljónir króna og Reykjavíkurborg 3,9 milljónir.

Konan leigði út íbúðir á Airbnb árið 2016, 2017 og 2018 en taldi ekki fram tekjur af útleigunni. Skattrannsóknastjóra reiknaðist til að vantalin skattskyld velta konunnar á því tímabili væri 28,3 milljónir króna.

Konan sagðist hafa byrjað að leigja út herbergi á heimili sínu þegar hún og þáverandi sambýlismaður hennar misstu vinnuna og lentu í fjárhagsvandræðum. Útleigan vatt upp á sig og þau leigðu fleiri herbergi út. Konan sagðist hafa samið við bankann um að leigja húsið eftir að hún missti það á uppboði. Hún hefði þá leigt það út á Airbnb en sjálf flutt í aðra leiguíbúð. Þá sagðist hún hafa leigt út íbúð fyrir frænda sinn en gert það í eigin nafni og ýmist millifært fé á hann eða tekið út pening í hraðbanka og afhent honum í umslagi. Aðspurð hvers vegna hún hefði ekki skráð sig á virðisaukaskattskrá og skilað virðisaukaskattsskýrslum sagðist hún hafa ýtt því frá sér.

Yfirskattanefnd taldi sannað að konan hefði brotið af sér. „Telja verður að leitt hafi verið í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi við útleigu húsnæðis til ferðamanna á árunum 2016, 2017 og 2018, en ekki gert grein fyrir tekjum sínum af þeirri starfsemi í skattframtölum árin 2017, 2018 og 2019, svo og að hún hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu sömu ár.“