Nýnasisti og satanisti skipulagði árás á eigin herdeild

23.06.2020 - 01:58
epa05772667 US soliders march during the military picnic 'Safe Poland', which also serves as a symbolic welcoming of US troops from the third Armored Combat Brigade Team of the fourth Infantry Division in the town of Boleslawiec in south-western
 Mynd: EPA - PAP
Bandarískur hermaður var handtekinn á dögunum, grunaður um að hafa ætlað að skipuleggja árás gegn eigin herdeild. Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákærði manninn í gær. 

Ethan Phelan Melzer er 22 ára hermaður Bandaríkjahers. Hann gegndi herþjónustu á Ítalíu og átti að fara til Tyrklands þegar hann færði manni sem hann taldi tengjast vígasveitum íslamista upplýsingar um hvar herdeild hans yrði. Maðurinn reyndist hins vegar heimildarmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Virkur á spjallsvæðum nýnasista og djöfladýrkenda

Melzer greindi enn fremur frá áætlunum sínum á spjallsvæðum nýnasista og djöfladýrkenda á vefnum. Þar sagði hann frá því hvar herdeild hans yrði og hvernig hún yrði vopnum búin. Taldi hann einfalt fyrir vígamenn að vinna bug á þeim.

Lýsti sér sem föðurlandssvikara

Melzer sagði heimildarmanni FBI að hann væri tilbúinn að deyja sjálfur í árás vígamannanna. Hann teldi það ákveðið sigurmerki, því þá gæti stríðið í Miðausturlöndum haldið áfram til lengri tíma.

Eftir að hann var handtekinn lýsti Melzer því yfir að hann væri föðurlandssvikari. Hann er ákærður í sex liðum fyrir að leggja á ráðin um morð á samherjum sínum, og miðlun upplýsinga til hryðjuverkahópa. Hann á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði hann dæmdur sekur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi