
Okeke-Agulu er prófessor við listasögu í Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Hann segir uppboðið á mununum varðveita minningu ofbeldisins í heimalandinu að eilífu. Sams konar styttur voru teknar frá heimabæ Okeke-Agulu og víðar í suðaustanverðri Nígeríu þegar reynt var að berjast fyrir sjálfstæði Bíafra. Allt að þrjár milljónir féllu í átökunum, þar af margir úr hungri. Okeke-Agulu segir í viðtali við Guardian að munirnir hafi komist í hendur annarra sökum ofbeldis. Þeir séu úr heimabæ hans, og með uppboðinu er verið að sækja áframhaldandi gróða vegna ofbeldis borgarastríðsins.
Talið er að stytturnar seljist fyrir um 250 til 350 þúsund evrur, jafnvirði um 39 til 54 milljóna króna. Fjölda svipaðra stytta var hnuplað á meðan stríðið varði. Margir munir voru teknir frá Anambra, heimahéraði Okeke-Agulu. Þar voru hvað mest átök í suðaustanverðri Nígeríu, þar sem meirihluti íbúa var Igbo-fólk. Eftir því sem átökin jukust tóku óprúttnir heimamenn höndum saman við vellauðuga listaverkasafnara við að smygla menningarverðmætum yfir landamærin til Kamerún.
Okeke-Agulu segist muna vel eftir því hversu djúpt það risti að missa dýrgripina. Hann segir það sérstaklega svíða sárt sem listasögukennara. Þegar hann nam afrískar listir við Nígeríuháskóla í Nsukka höfðu nemendur ekki aðgang að lykilverkum Igbo eða Yoruba. Hann kallar eftir því á Twitter að Christies hætti við uppboðið, og birtir með færslunni hlekk á undirskriftasöfnun á netinu. Um 1.300 hafa skrifað undir.
United Nations: #BlackArtsMatter Stop Christie's from selling STOLEN Igbo Sculptures . - Sign the Petition! https://t.co/rjrQjgynyK via @Change
PLEASE SIGN AND SHARE! GRATEFULLY— Chika Okeke-Agulu (@Chikaokekeagulu) June 18, 2020
Stytturnar sem auglýstar eru hjá uppboðshúsi Christies voru í eigu franska listmunasafnarans Jacques Kerchache. Honum áskotnaðist þær undir lok sjöunda áratugarins, að öllum líkindum af belgíska listaverkasalanum Phillipe Guimiot.