Þung umferð er bæði á Suður- og Vesturlandsvegi út úr borginni í dag. „Langar bílaraðir ná nánast niður í Ártúnsbrekku,“segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ valda töfum
„Íslendingar eru að ferðast innanlands,“ segir Árni í samtali við fréttastofu. Hann segir tafirnar stafa að einhverju leyti af þrengingu á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ en framkvæmdir við tvöföldun hans hófust í síðustu viku. Þá bilaði bíll í Hvalfjarðargöngunum fyrr í dag og lokaði Vegagerðin göngunum um stund vegna þess með tilheyrandi töfum.
Einnig slökknaði á nokkrum umferðarljósum á stofnbrautum borgarinnar eftir að grafið var í rafmagnsstreng á vinnusvæði við Landspítalann. Allt rafmagn er nú komið á aftur.