Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Myndir af þingmönnum fjarlægðar á Bandaríkjaþingi

19.06.2020 - 06:42
Architect of the Capitol workers remove a portrait of Howell Cobb of Georgia that was hanging in the Speakers Lobby on Capitol Hill, Thursday, June 18, 2020, in Washington. (Nicholas Kamm/Pool via AP)
 Mynd: AP
Myndir af fjórum þingmönnum Bandaríkjaþings á 19. öld voru teknar niður af veggjum þinghússins í gær. Mennirnir gegndu allir herþjónustu í Suðurríkjasambandinu á sínum tíma. Þeir höfðu allir verið forsetar fulltrúadeildar þingsins, en það var núverandi þingforseti, Nancy Pelosi, sem skipaði svo um að myndirnar yrðu teknar niður.

Pelosi sagði ekkert pláss á helgum göngum þinghússins til þess að heiðra menn sem voru holdgervingar ofbeldisfullrar þröngsýni og fáránlegs rasisma Suðurríkjasambandsins. Hún sagðist jafnframt hafa valið að gera þetta daginn fyrir 19. júní, þegar þess er minnst að endi var bundinn á þrælahald í Bandaríkjunum. 

Dagleg mótmæli hafa verið í Bandaríkjunum síðan George Floyd, sem er svartur, var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis með því að þrengja að hálsi hans í nokkrar mínútur 25. maí. Styttur af foringjum og frammámönnum Suðurríkjasambandsins hafa ýmist verið rifnar niður af mótmælendum, eða yfirvöld hafa krafist þess að þær verði fjarlægðar. 

Pelosi vill líka losna við styttur

Myndirnar sem teknar voru niður af göngum þingsins voru af þeim Robert Hunter úr Virginíu, Howell Cobb og Charles Crisp frá Georgíu og James Orr frá Suður-Karólínu. Pelosi segir þá eitt sinn hafa svarið þess eið í þinghúsinu að varðveita og vernda þrælahald svo þeir gætu notið eigna sinna í friði, ró og öryggi.

Pelosi hefur einnig sóst eftir því að ellefu styttur tengdar Suðurríkjasambandinu verði fjarlægðar af göngum þinghússins. Þeirra á meðal styttuna af Jefferson Davis, sem var forseti Suðurríkjasambandsins og dæmdur fyrir landráð gegn Bandaríkjunum. Þingnefnd fer nú yfir þá ósk hennar.