Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögreglumaður drepinn við skyldustörf í Auckland

19.06.2020 - 06:28
This image made from a video, shows armed police at the scene of a shooting incident following a routine traffic stop in Auckland, New Zealand, Friday, June 19, 2020. New Zealand police say a few officers have been shot and seriously injured and a suspect is on the run. (TV New Zealand via AP)
 Mynd: AP
Óvopnaður nýsjálenskur lögreglumaður lést af sárum sínum eftir að maður skaut hann og annan lögreglumann í Auckland í morgun. Hann er fyrsti lögreglumaðurinn í rúman áratug sem deyr við skyldustörf.

Að sögn lögreglu voru lögreglumennirnir við eftirlit í borginni þegar þeir stöðvuðu bíl. Tveir sátu í bílnum, og tók annar þeirra upp riffil og skaut á lögreglumennina. Annar lögreglumaðurinn lést eins og áður segir, en hinn var fluttur á sjúkrahús, alvarlega særður á fæti. Vegfarandi var einnig fluttur á sjúkrahús eftir að bílnum var ekið á hann þegar mennirnir flýðu vettvang.

Að sögn Andrew Coster, talsmanns lögreglunnar í Auckland, voru mennirnir að sinna hefðbundnum skyldustörfum. Ekkert benti til þess að dagurinn yrði eitthvað öðruvísi en hver annar. Coster vildi ekki giska á hvað mönnunum gekk til. 

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, harmaði árásina, og vottaði fjölskyldu hins látna virðingu sína, sem og samstarfsmönnum hans í lögreglunni. „Þetta eru hryllilegar fréttir. Lögreglumenn vinna hörðum höndum á hverjum degi að því að gæta öryggis okkar," sagði hún í yfirlýsingu.
Vopnuð lögregla var kölluð út til að leita árásarmannanna í Massey úthverfinu í vesturhluta Auckland. Enn hefur ekkert sést til þeirra að sögn AFP fréttastofunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV