Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gripir landnámsfólks flæða í tugatali úr jörð á Stöð

19.06.2020 - 20:13
Fleiri mannvirki hafa komið í ljós á Stöð í Stöðvarfirði við uppgröft á stærsta skála víkingaaldar sem fundist hefur á Íslandi. Tugir gripa koma úr jörðu á hverjum degi, perlur og verkfæri, sumt með skrauti, eftir landnámsfólk.

Þetta er fimmta sumarið sem grafið er í íverustað landnámsfólks á Stöð. Þar er yngri skáli reistur á rústum eldri og stærri skála sem er næstum fjörutíu og fjögurra metra langur.

„Svona firnastór skáli kemur svolítið á óvart, en í fyrsta lagi er alls ekkert víst að hann hafi verið byggður í einu vetfangi heldur í áföngum og í öðru lagi er honum skipt niður í minni einingar þannig að íveruhlutinn þarf ekkert endilega að vera svo stór. Hann getur hafa verið 15 metrar eða eitthvað svoleiðis. Endinn á honum er smiðja, það vitum við. Við vitum ekkert meira um önnur rými í skálanum,“ segir dr. Bjarni F. Einarsson, framkvæmdastjóri Fornleifafræðistofunnar.

Bjarni hefur sett fram þá kenningu að eldri skálinn gæti hafa verið útstöð erlends höfðingja sem lét fólk vinna verðmæti á Íslandi fyrir eiginlegt landnám. Spennandi verður að sjá hvað kemur úr gólfi hans en það bíður, því í sumar á að klára gólf  þess yngri. Hvergi í skálum á Íslandi hafa fundist eins margar perlur, þær eru orðnar um 130 talsins. „Þetta er augnaperla eða augnperla. Önnur slík sem finnst í Stöð. Það má ráða í hana að hún er upprunnin frá Arabíu eða úr múslímskum heimi og á henni eru augu. Þetta er auga Allah sem blasir þarna við. Þetta berst með verslunarleiðum frá Arabíu norður á bóginn og finnst í stórum dráttum alls staðar í Norður-Evrópu,“ segir dr. Bjarni.

Þá fannst silfurhringur eða brot úr silfurskarti með hárfínum skrautrákum. Einnig steinvala með pári eftir landnámsmenn og á snældusnúð má líka sjá móta fyrir myndskrauti, ormi eða dreka. Jafn smáir snældusnúðar hafa ekki fundist áður hér á landi en þeir voru notaðir til að gera grannan þráð í fín klæði. Sérstaka athygli vekja yfir 60 til höggnar steinskífur sem gætu hafa verið lok í skinnbelgi.

„Það er alveg óendanlega mikið af gripum hérna og það tefur okkur satt best að segja því það þarf að mæla þetta allt inn og það tekur drjúgan tíma. Og hægir á okkur mjög en það er líka mjög jákvætt. Svo höfum við verið að grafa prufuholur eða skurði hér á túninu austan við skálana og þar erum við búin að finna ummerki um athafnir einhverjar. Þar á meðal hús og eitthvað sem við höfum engan skilning á núna en munum skoða betur næsta sumar,“ segir dr. Bjarni F. Einarsson, framkvæmdastjóri Fornleifafræðistofunnar.